Ölfusá fyrir landi Selfoss var opnuð af félagsmönnum Stangveiðifélags Selfoss í gærmorgun.
Hefð er fyrir því að bæjarstjórn Árborgar skipi þann aðila sem opnar ána og í ár var það Bragi Bjarnason, forseti bæjarstjórnar Árborgar sem tók fyrsta kastið klukkan sjö, undir leiðsögn Guðmundar Maríasar Jenssonar, formanns félagsins. Það beit þó ekki á hjá Braga og veiddist ekkert fyrir hádegi á fyrsta degi. „Núna hef ég verið formaður í 12 ár og hef aldrei opnað ána með sömu manneskjunni, mér finnst það dálítið skemmtilegt,“ Segir Guðmundur glaður í bragði. Í fyrra veiddust í Ölfusá 124 laxar og 48 sjóbirtingar.