1.7 C
Selfoss

Valgeir 70 ára – Hátíðartónleikar í Skálholti á Þjóðhátíðardaginn

Vinsælast

Dagskráin hafði spurnir af þessum merku Sagnatónleikum sem haldnir verða á sjálfum Þjóðhátíðardegi Íslendinga. Að sögn Ástu Kristrúnar þótti tilhlýðilegt að frumflytja verk bónda hennar Valgeirs Guðjónssonar í Skálholti þar sem einmitt á þeim stað haldast sagan og þjóðin hönd í hönd.

Aðspurð sagði hún að verkið væri útkoma náins samstarf Valgeirs, Sindra Mjölnis og hennar. Valgeir er höfundur tónlistar og lagatexta, Sindri bindur lögin saman í söguþráð með stuttum sögum og í veigamikilli Tónleikaskrá sem er gerð af þessu tilefni fellir hann inn listrænar teikningar sínar við hvert lag og stað í sögunni hverju sinni. 

Ásta kveðst hafa verið brúin á milli þessara tveggja listamanna sem eru á afar ólíkum aldri. 

Valgeir Guðjónsson er flestum kunnur sem komnir eru um og yfir miðjan aldur, en Sindri Mjölnir sem er borinn og barnfæddur á Selfossi er nýorðin 28 ára og er án efa að stimpla sig inn í menningarflóru landsins með þessu verkefni. Sindri Mjölnir lauk námi í kvikmyndagerð með láði við Columbia College Hollywood og fagmennska hans kristallast fagurlega í tónleikaskránni sem kemur út í takmörkuðu upplagi af tölusettum eintökum. Sem sagt Hátíðartónleikar með Tónleikaskrá sem safngrip. Prentmet Oddi á Selfossi á svo heiðurinn af að skila útkomunni í vandað prentverk. 

Ásta segir að frumflutningur á Saga Musica sé aðallega hugsaður fyrir Íslendinga, en textar Valgeirs og sögur Sindra í Tónleikaskránni eru á ensku með hliðsjón af þeim stóra markhópi sem hrífst af Íslendingasögunum og öllu því sem að víkingatímabilinu snýr. „Til að létta undir með áheyrendum hvað varðar hrynjanda í söguþræði hef ég unnið stutta útdrætti á íslensku, sem ég mun flytja á milli laga sem upptakt“, segir Ásta enda erum við að tala um Sagnatónleika. „Rjómi tónlistafólks flytur verkið ásamt Valgeiri og flytjendur eru hvorki meira né minna en sjö talsins. Heiðurgestur tónleikanna verður svo okkar yndislega Valgerður Guðnadóttir leik- og söngkona sem hefur áður unnið með okkur Bakkastofuhjónum í flutningi stakra Saga Musica laga. Reyndar voru okkar fyrstu kynni þegar hún var í hlutverki Fjallkonunnar árið sem Bakkstofa var stofnuð en þá var Valgeir höfundur ávarps Fjallkonu“.

Á tix.is má kaupa miða en einnig tónleikaskrána og lesa nánar um tónleikana.

Nýjar fréttir