-5.8 C
Selfoss

Leitin að Zen

Vinsælast

Sálfræðingurinn Hugrún Vignisdóttir mun í vikunni opna litla notalega sálfræðistofu í Fjölheimum á Selfossi sem ber nafnið Zen sálfræðistofa, www.zensal.is. Þar mun hún taka á móti foreldrum, verðandi foreldrum, börnum, unglingum, ungmennum og íþróttafólki í sérhæfða sálfræðimeðferð. Zen sálfræðistofa verður opin á þriðju- og miðvikudögum á hefðbundnum skrifstofutíma. Samhliða starfinu hjá Zen sálfræðistofu heldur Hugrún áfram að starfa hjá Litlu Kvíðameðferðarstöðinni í Reykjavík, sem er sálfræði- og ráðgjafaþjónusta fyrir börn, unglinga og ungmenni þar sem hún hefur nú starfað í rúmt ár.

Hugrún er fædd í Reykjavík og sleit barnaskónum í Þorlákshöfn frá þriggja ára aldri. Hún fluttist síðan ásamt kærasta sínum, Karli Ágústi Hannibalssyni, til Reykjavíkur árið 2006 þar sem hún náði sér í BS- gráðu í sálfræði. Þau lögðu svo land undir fót árið 2009 og fluttu til Danmerkur þar sem Hugrún bætti við sig cand.psych gráðu í sálfræði frá Háskólanum í Árósum. Síðasta áratuginn hefur Hugrún búið á Selfossi ásamt fyrrnefndum kærasta sem er í dag eiginmaður hennar og hefur fjölskyldumeðlimum fjölgað um helming með tilkomu barna þeirra tveggja.

Eftir útskrift árið 2012 hóf Hugrún störf sem skólasálfræðingur þar sem hún sinnti greiningum barna, unglinga og ungmenna, ráðgjöf til foreldra og kennara ásamt því að halda fjölmarga fyrirlestra fyrir nemendur, kennara og starfsfólk skóla. Hún hefur einnig víðtæka reynslu í málefnum trans barna og hefur unnið með íþróttafólki varðandi markmiðasetningu, meiðsli og frammistöðu. 

Vöntun á sálfræðiþjónustu á Suðurlandi

Þrátt fyrir að vera rétt að hefja störf hér á Selfossi finnur Hugrún fyrir mikilli eftirspurn, enda ekki um auðugan garð að gresja þegar kemur að sjálfstætt starfandi sálfræðingum á Suðurlandi. Biðlistar eru langir og þörfin er brýn. 

Hugrún er virkilega metnaðargjörn gagnvart sínu starfi og á auðvelt með að hugsa í fjölbreyttum lausnum. „Oft þarf lítið annað en ný augu á eitthvað sem maður hefur sjálfur verið að veltast um með í langan eða skemmri tíma. Mér finnst svo gaman að vinna þessa vinnu, hún er svo ótrúlega fjölbreytt og það hentar mér afar vel. Einhverjir þurfa bara að koma í nokkur skipti, aðrir einu sinni í mánuði, viku eða oftar, þetta er svo einstaklingsbundið.“ 

Það felst engin skömm í því að leita sér aðstoðar

„Mér finnst svo gaman að setjast niður með fólki, fá að grúska með þeim og leita saman að lausnum. Stundum heldur fólk að það geti komið í einn tíma og fengið lausn á silfurfati, en það er því miður ekki þannig, það er ekkert eitt sem virkar fyrir alla. Við þurfum að geta unnið í þessu saman, prófað nýjar aðferðir og hluti. Sumt virkar, annað ekki og það er allt í lagi. Við setjum okkur markmið í upphafi meðferðar og ef skjólstæðingarnir eru tilbúnir til að vinna vinnuna með þeim verkfærunum sem þeir fá þá eru þeir nær því að ná markmiðunum sínum. Það er alls ekki alltaf auðvelt. Og bara það að mæta getur verið erfitt fyrir marga. Það hefur einhvern veginn fylgt því ákveðin skömm að leita sér aðstoðar. Fyrir mér er það hugrekki en ekki veikleiki. Og svo er frábært að fólk hafi úr fleiri sálfræðingum að velja því það er ekki sjálfgefið að eiga samleið og þá má breyta og skipta.“ 

Börn eru spegill umhverfisins 

Aðspurð um nafnið á stofunni svarar Hugrún: „Ég öðlaðist nýja vídd í veröld mína eftir að ég fór að stunda jóga. Að finna stað þar sem ég get algerlega kúplað mig út, fengið útrás, mætt öllum mínum hugsunum og hindrunum er svo gott. Að vera í mínu Zen-i. 

Þannig að Zen fyrir mér er að staldra við, taka eftir og læra að skilja það sem er að gerast og mæta því. Við gerum eins vel og við getum hverju sinni út frá þeim upplýsingum eða verkfærum sem við höfum. Og þess vegna vona ég að ég geti bætt við skilning og verkfærakistu minna skjólstæðinga svo þau geti sjálf fundið sitt eigið Zen. Flest förum við nefnilega í gegnum daginn á hálfgerðri sjálfstýringu.

„Við erum oft ómeðvituð um hvað það er sem lætur okkur líða eins og okkur líður og haga okkur á ákveðinn hátt.“

Við erum oft ómeðvituð um hvað það er sem lætur okkur líða eins og okkur líður og haga okkur á ákveðinn hátt. Þar er ég sjálf engin undantekning. Og ekki börnin okkar heldur. Það er ýmislegt sem spilar þar inn í og er í sjálfu sér efni í heilan pistil. En í grunninn er gott að læra að staldra við og rýna til gagns í það sem á sér stað yfir daginn. Hvað gerði mig í raun og veru pirraða, leiða, glaða, reiða. Af hverju truflaði hegðun annarrar manneskju mig ef ég stjórna minni eigin hegðun.

Mögulega erum við bara alls ekki eins góð í að skilja og stýra tilfinningum okkar og við höldum. Ég hef trú á að við lærum svo lengi sem við lifum. Hvort sem það snýst um að skilja líðan sína og viðbrögð eða bera virðingu fyrir sjálfum okkur, öðrum og fjölbreytileika lífsins, þá getum við lært það. Fjölbreytileikinn er svo frábær og gerir vinnuna svo skemmtilega. Börn eru sérstaklega skemmtileg því þau eru svo fordómalaus og einlæg. Við fæðumst nefnilega fordómalaus hvort sem þið trúið því eður ei. Þau verða svo eins og spegill umhverfisins sem þau búa í. 

Virðing er allt sem þarf

Það þarf þorp til að ala upp barn er oft sagt og það er að mörgu leyti satt. Það má hafa skoðun á orðræðu barna þó það sé ekki þitt eigið barn. Og barn má hafa skoðun á orðræðu fullorðins fólks þó það sé ekki þess eigið foreldri. Það mega allir staldra aðeins við og hugsa sig um áður en þeir láta út úr sér óvarfærin orð um annað fólk í samfélaginu okkar.

Þú þarft ekki að hafa skoðun á því hvernig nágranninn málaði húsið, hvernig klippingu barnið þitt er með eða hvernig einstaklingur skilgreinir sig. Það eina sem þú þarft að gera er að sýna virðingu. Skilningur er ekki forsenda virðingar en algjörlega frábær viðbót.

Fáfræðsla skapar fordóma svo með fordómum erum við í raun að koma upp um eigið eðli að vilja ekki læra meira og neita að sýna öðrum virðingu. Eru það mannkostir sem við viljum að komandi kynslóð erfi? Þetta byrjar allt hjá okkur, mér …og þér lesandi kær“ segir Hugrún.

Viðtal: Helga Guðrún Lárusdóttir

Nýjar fréttir