-1.1 C
Selfoss

Vor í Hveragerði

Vinsælast

Það var gott að vakna á mánudagsmorgni í fallega bænum mínum í 11 gráðu hita og glaðasólskini eftir stutt kuldakast dagana á undan. Á laugardeginum höfðu bæjarbúar gengið til kosninga og fellt hreinan meirihluta Sjálfstæðisflokksins til 16 ára. Þegar þetta er skrifað standa yfir viðræður Okkar Hveragerðis og Framsóknar um myndun nýs meirihluta.

Um leið og ég óska sigurvegurum kosninganna til hamingju með gæsilega framgöngu vil ég þakka fráfarandi bæjarstjóra, Aldísi Hafsteinsdóttur fyrir mikilsvert framlag til bættrar ásýndar bæjarnins. Hveragerðið mitt hefur satt að segja aldrei verið fallegra á að líta.

Nýs meirihluta bíður hins vegar brýnt verkefni – að styrkja innra starf stjórnsýslu og stofnana í bænum. Í því verkefni tel ég mikilvægt að líta sérstaklega til eftirfarandi þátta:

  • Starfsfólk hvers sveitarfélags er fyrst og síðast mannauður en ekki kostnaðarliður. Kjarabætur lykilstarfsmanna í láglaunastéttum eru þannig ekki stórslys heldur gríðarlegt fagnaðarefni.
  • Þróun atvinnumála skyldi nálgast með því að móta framtíðarsýn og stefnu í samvinnu við vini okkar í nágrannasveitarfélögunum en ekki láta duga að taka vel á móti þeim sem tilfallandi banka upp á.
  • Hlutverk bæjarstjórnar skyldi ávallt vera að skapa íbúum styðjandi samfélag um nýsköpun og frumkvöðlastarf- en aldrei að leggja stein í götu þeirra.
  • Nauðsynlegt er að virkja mannauð innan raða sitjandi bæjarfulltrúa þvert á flokka.
  • Mikilvægt er að tryggja bæjarfulltrúum aðgengi að bestu fáanlegu upplýsingum og svigrúm til ígrundunar í hverju máli.

Ekki efast ég um að nýr meirihluti sjái fyrir sér að vera vakinn og sofinn yfir verkefnum og hagsmunum Hvergerðinga næstu fjögur árin. Það er gott. Mest er þó um vert að gera ekki einungis sitt allra besta sjálfur heldur bera einnig kennsl á mannauðinn í stofnunum bæjarins og treysta og fagna faglegu sjálfræði þess úrvals sem þar hefur valist til starfa.

Megi allar góðar vættir fylgja nýjum meirihluta Hveragerðisbæjar okkur öllum til heilla.

Soffía Valdimars,
Hvergerðingur og lektor við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands.

Nýjar fréttir