-0.5 C
Selfoss

Þórsvegur og Upplýsingaskilti að Flóðgátt Flóaáveitunnar

Vinsælast

Laugardaginn 21. maí nk. klukkan ellefu verður nýtt upplýsingaskilti afhjúpað að Flóðgátt Flóaáveitunnar upp við vegamótin á Brúnastaðavegi þar sem farið er inn á Þórsveg. Þórsvegur liggur eftir ruðningi Vélaskurðarins austur að inntaksmann-virki Flóaáveitunnar, á Brúnastaðaflötum. Upplýsingaskiltið er hannað af Birni G. Björnssyni hönnuði.

Vegurinn sem liggur að Flóðgáttinni fær nú nafnið Þórsvegur, í höfuðið á Þór Vigfússyni skólastjóra Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi. Þór var frumkvöðull og tillögumaður að vegagerðinni en hann var oft leiðsögumaður hópa sem fóru að skoða Flóðgáttina og fræðast um Flóaáveituna, en veginn vígði Ögmundur Jónas-son samgönguráðherra á 85 ára afmæli Flóaáveitunnar árið 2012. Þar flutti Þór eina af sínum síðustu ræðum sem var eftirminnileg, en hann lést 2013. Þór var sagnamaður, hann sagði gjarnan að fyrsti tunglfarinn Neil Armstrong hefði bætt við eftir að hafa sagt ,,þetta er lítið skref fyrir mann en risastökk fyrir mannkynið.“ Ég sé tvö mannvirki á jörðinni, annað er Kínamúrinn og hitt er Flóaáveitan.

Hildur Hákonardóttir hannyrðakona og ekkja Þórs mun afhjúpa skiltið, við hátíð-lega athöfn kl. 11.00 á laugardaginn kemur. Ragnheiður Gló Gylfadóttir fornleifa-fræðingur flytur ávarp. Framkvæmdir við Flóaáveituna hófust  hinn 7. maí 1922 fyrir eitt hundrað árum. Þá jókst grassprettan  og heyfengur í Flóanum. Mjólkur-kúnum fjölgaði og mjólkin óx. Mjólkurbú Flóamanna reis og tók til starfa 1929 en það hefur verið endurreist í miðbæ Selfoss. Kaupfélag Árnesinga tók til starfa 1930 og Selfossbyggðin óx og dafnaði í framhaldinu og,,smjör draup af hverju strái,” í Flóanum. Sá hinn merki maður Egill Thorarensen varð kaupfélagsstjóri og leiddi þessi systurfyrirtæki næstu þrjátíu árin.

Ferðafélag Íslands efnir til  göngu að Flóðgáttinni að athöfn lokinni, fótafúnir aka. Þar mun stjórn Flóaáveitufélagsins opna fyrir áveituvatnið úr Hvítá inn á kerfi áveitunnar með dúnkröftum, tilkomumikil sjón. Allir eru velkomnir að taka þátt í athöfninni og göngunni að Flóðgáttinni undir leiðsögn Flóamannanna Guðna Ágústssonar og Guðmundar Stefánssonar ásamt Birgi Jónssyni jarðfræðingi.

Nýjar fréttir