-0.5 C
Selfoss

Sumarlegur apríkósu-kjúklingur

Vinsælast

Magnús Sigurjón Guðmundsson er matgæðingur vikunnar.

Það er komið að því – draumur minn er loks að verða að veruleika! Ég flutti hingað sumarið 2016 og á fyrsta degi einsetti ég mér það að verða matgæðingur vikunnar í Dagskránni. Biðin hefur verið löng og ströng og hef ég meira að segja reynt að væla út boðið í gegnum samfélagsmiðilinn Twitter. Ég hef talað fyrir tómum eyrum en nú þegar annar matgæðingur forfallast er ég notaður sem uppfyllingarefni en hleyp glaður í skarðið. Frá ómunatíð hef ég verið mikill matgæðingur og elska fátt meira en að belgja mig út af mishollum mat.

Eftir slys sem ég varð fyrir árið 2019 missti ég algjörlega bragð- og lyktarskyn og þarf því að njóta matarins á algjörlega nýjan hátt. Núna finn ég engan bragðmun á dýrindis steik og mánaðargömlu uppsópi af skítugu vegasjoppugólfi. Því eru góð ráð dýr og borða ég núna með augunum. Lífsins lystisemdir met ég eftir fegurðarstuðlinum einum saman en það fyrirgefa mér það allir. Meðan ég sporðrenni matnum þá hugsa ég um gómsæta rétti sem ég borðaði í fortíðinni og ímynda mér að þetta sé sami framandi rétturinn.

Ég ætla að deila með ykkur rétti sem ég hef sérstakt dálæti af:

Sumarlegur apríkósu-kjúklingur

  • 4 Kjúklingarbringur eða dass af kjúklingalærum
  • ½ Laukur
  • ½ dl Púðursykur
  • Klípa af sætu sinnepi
  • ½ dl Sýróp
  • ½dl Soya sósa
  • 5-6 matskeiðar af apríkósumarmelaði
  • Hvítlaukur eftir hentisemi
  • ½ matskeið af rjómaosti
  • 1 dl matreiðslurjómi
  • Sesamfræ
  • Graslaukur

Skerið kjúklinginn í bita og brúnið hann upp úr ólífuolíu. Kryddið með salti og pipar. Blandið saman í skál: apríkósu-marmelaðinu, púðursykrinum, smátt skornum lauk, hvítlauk eftir smekk, sýrópinu, soyasósunni og sæta sinnepinu og hrærið þangað til að sykurinn fer að mýkjast. Hellið blöndunni yfir pönnuna og setjið rjómann út í. Mér finnst gott að setja smá rjómaost til að gera réttinn extra klístraðan og creamy. Látið suðuna koma upp og sjóðið herlegheitin niður þar til að sósan þykkist og verður vel klístruð. Þegar þið eruð sannfærð um að kjúklingurinn er orðinn tilbúinn takið hann þá af pönnunni og stráið yfir hann sesamfræjum og graslauk til að skreyta réttinn.

Mæli með að bjóða upp á hvítlauksbrauð og hrísgrjón á kantinum. Þar sem rétturinn er sumarlegur og ferskur þá finnst mér gott að bjóða upp á ferskt. Kál að eigin vali, agúrka, paprika, kirsuberjatómatar, bláber, jarðaber, mangó og fetaostur. Notið hugarflugið.

Ég skora á Jón Sveinberg Birgisson, hertogann af Stóru Sandvík, en hann var fyrsti Selfyssingurinn sem bauð mér í mat eftir að við fluttum hingað. Sér væntanlega eftir því í dag.

Nýjar fréttir