-4.9 C
Selfoss

Lofa skal það sem vel er gert

Vinsælast

Það virðist vinsælt nú um stundir að berja á heilbrigðiskerfi landsmanna og hallmæla því við hvert tækifæri. Ég vil til mótvægis því lýsa góðri reynslu minni af þjónustu heilbrigðiskerfisins undanfarið, án þess þó að kasta rýrð á upplifun þeirra sem hafa aðra sögu að segja. Því engin tvö tilvik eru nákvæmlega eins, sem berast á borð heilbrigðisstarfsfólks, og ekkert kerfi er án hnökra..

Í upphafi þessa árs greindist ég með krabbamein á raddböndunum en misserin þar á undan hafði læknir Landspítalans fylgst reglulega með ástandi þeirra. Það kom sér afar vel að meinið greindist á forstigi og hafði ekki dreift sér út til annarra vefja líkamans. Eftir tvær vikur var komin áætlun um meðferð og þá hófst afar vandað kynningarstarf og upplýsingaviðtöl við lækna og hjúkrunarfræðinga á hinum ýmsum sviðum. Við tók geislameðferð alla virka daga í röð í 35 skipti. Allt gekk það eftir sem fagfólkið hafði sagt mér um meðferðina fyrirfram. Á meðan á henni stóð var stöðugt fylgst með líðan minni og eftirlit og upplýsingaflæði var samfellt. Að meðferð lokinni tók við eftirlit af hálfu lækna og hjúkrunarfólks. Allur þessi ferill gekk fullkomlega snurðulaust og allar tímasetninga stóðust fullkomlega. Fyrir nokkrum dögum voru raddböndin mynduð og þar var ekki að sjá nokkur ummerki eftir krabbameinið. Engin lyfjameðferð og að svo stöddu ekki talin þörf á frekari meðferð. Ég verð síðan í stöðugu eftirliti hjá lækni Landspítalans, fyrst á tveggja mánaða fresti síðar með lengra millibili og alls í fimm ár. Framkoma lækna á Landspítalanum og hjúkrunarfólks á geisladeildinni var einstaklega fagleg og vinsamleg. Viðmótið og elskulegheitin munu varðveitast í huga mér og fjölskyldu minnar um ókomna tíð, og allt þetta fólk var greinilega þrautþjálfað í sínum víðtæku og vandasömu verkefnum. Gangi þeim allt í haginn.

Sveinn Runólfsson,
fyrrverandi landgræðslustjóri.

Nýjar fréttir