9.5 C
Selfoss

Þ fyrir Bláskógabyggð

Vinsælast

Þann 9. júní árið 2002 sameinuðust hrepparnir Biskupstungur, Laugardalur og Þingvallasveit, í sveitarfélagið Bláskógabyggð. Fyrstu árin var Þ-listinn í meirihluta eða allt til ársins 2010. Síðan þá hefur T-listinn haldið um stjórnartaumana. Þ-listinn hefur borið skarðan hlut frá borði en sækir nú fram enn á ný, með lista er endurspeglar fjölbreytileika samfélagsins.

Kjörorð Þ-listans eru komin frá Bjarna Þorkelssyni, fyrrum kennara á Laugarvatni og eru eftirfarandi, Þor – Þekking – Þjónusta. Við viljum skrifa hér stuttlega út frá þeim kjörorðum.

En ítarlega stefnuskrá listans er að finna á heimasíðunni þlistinn.is

Þor

Að vera óhrædd og ófeimin við að gera alla stjórnsýslu sýnilegri, hafa aðgengilegar upptökur af sveitarstjórnarfundum, ásamt birtingu fundargagna. Að sveitarstjórn haldi minnst einn opinn fund á ári. Að þora að leggja fram sveitarstjóraefni og leggja niður starf oddvita.

Þekking

Við eigum að vera óhrædd við að hleypa nýju fólki að í stjórn og nefndir sveitarfélagsins og virkja þannig sem best mannauðinn okkar til góðra verka. Við getum stjórnað okkur sjálf, höfum þekkinguna og reynsluna.Setjum stefnumörkun á dagskrá með aðkomu sem flestra.

Þjónusta

Öll samskipti og ábendingar verði auðveldari með nýjum þjónustuvef. Einnig verði lögð reglulega fyrir þjónustukönnun líkt og tíðkast í stærri sveitarfélögum og unnið ítarlega úr þeirri könnun. Tökum vel á móti nýjum íbúum sveitarfélagsins með stofnun móttökuráðs er hefur m.a. það hlutverk að útbúa ítarlega handbók á helstu tungumálum. Þ-listinn stendur fyrir aukinni þjónustu við barnafjölskyldur meðal annars með því að bjóða upp á samgöngur í tengslum við félagsmiðstöðvarstarf unglinga.

Hvers vegna skiptir þor, þekking og þjónusta máli. Vegna þess að Bláskógabyggð er sveitarfélag sem hefur sál, sögu og samfélag, sem ber að rækta af alúð og einlægum metnaði.   Við bjóðum fram krafta okkar til þjónandi forystu í okkar góðu Bláskógabyggð.

Anna Greta Ólafsdóttir og Jón Forni Snæbjörnssonm
1. 
og 2. sæti Þ-listans í Bláskógabyggð

Nýjar fréttir