-6.7 C
Selfoss

Takk fyrir okkur!

Við í Framsókn í Árborg tilheyrum blómstrandi og lifandi samfélagi þar sem börnin okkar hafa, munu eða eru að alast upp. Samfélag þar sem við viljum að allir blómstri óháð því hvaða spil þeir fengu á hendi. Samfélag þar sem við viljum njóta ævidagana.

Listann skipa frambjóðendur á öllum aldri og úr öllum kimum samfélagsins. Stefna okkar er að fólk og velferð þeirra verði í öndvegi. Fjölskyldan er sú grunneining sem allt í samfélagi okkar snýr að og því teljum við mikilvægt að setja málefni hennar á oddinn við alla ákvarðanatöku og framtíðarstefnumótun. Með því að leggja ríka áherslu á snemmtæka íhlutun í menntakerfi sveitarfélagsins og barnið sé í forgrunni þegar kemur að þjónustu við fjölskylduna svo að hún geti blómstrað í samfélaginu.

Við í Framsókn ætlum að jafna leikinn með því að auka aðgengi barna, unglinga og aldraðra að íþrótta og frístundastarfi óháð efnahag og skapa samfélag í fararbroddi varðandi aðstöðu fyrir íþrótta- og menningarstarfsemi.

Efst í huga okkar nú þegar kosningar eru á næsta leyti er þakklæti til allra þeirra sem hafa frætt okkur betur um sveitarfélagið, allra þeirra sem hafa tekið sér tíma til þess að upplýsa okkur um hvað vel hefur verið gert, hvað má betur fara og að hverju þarf að hyggja á komandi árum og áratugum. Mikilvægt er að við fjölgum búsetuúrræðum fyrir aldraða og eflum heimaþjónustu fyrir fólkið okkar sem lagði grunninn að því sem við höldum áfram að byggja framtíðina á.

Við teljum okkur vera öflugan málsvara í sveitarfélaginu okkar og munum berjast fyrir því að það haldi áfram að vaxa og dafna. Því viljum við gera Árborg eftirsóknaverða fyrir atvinnufyrirtæki. Við í Framsókn ætlum að fjárfesta í fjölskyldunni á komandi kjörtímabili!

Nýtum kosningaréttinn okkar, látum framtíðina ráðast á miðjunni og setjum X við B næstkomandi laugardag, 14 maí.

Frambjóðendur á lista Framsóknar í Árborg

Nýjar fréttir