-10.3 C
Selfoss

Förum varlega en djarflega

Sigrún Hrefna Arnardóttir

Kæru sveitungar senn líður að kosningum.  Uppskeruhátíð lýðræðissamfélaga þar sem því er ráðið til lykta hverjir bera þá ábyrgð að taka sæti við stjórnvölinn.  Nú er það blessunarlega svo að við kjósendur veljum úr hópi þeirra sem hafa boðið fram tíma sinn og þekkingu.  Sveitarstjórn þarf að samanstanda af einstaklingum sem þekkja sín gildi og hafa  skýra  samfélagssýn.  Aðeins þannig geta þeir þjónað samfélaginu og tekið ákvarðanir til heilla og framfara.  Með eftirfarandi orðum vil ég freista þess að varpa ljósi á sýn mína og gildi, ég vil einnig hvetja lesendur til ábyrgðar að nýta kosningarétt sinn.  Lýðræðið er á okkar ábyrgð.

Nú hef ég boðið fram krafta mína með því að taka 4.sæti Framfaralistans. Ég sækist þar með eftir því að bera ábyrgð og um leið hafa áhrif til hins betra. Þetta geri  ég vegna áhuga míns um gott samfélag,

En hvað er gott samfélag?

Því er ekki svarað með einföldum hætti en byggist væntanlega á mörgum samverkandi þáttum. Þar má nefna fjölskylduvænt umhverfi þar sem utanumhald skóla og æskulýðsstarfs er vel skipulagt.  Staðinn sé vörður um öryggi og forvarnir til handa ungmennum okkar og æskulýð.  Ég trúi því að í samfélagi þar sem hver einstaklingur skiptir máli og fær jákvæða athygli og hvatningu til góðra verka sé fólgin mikil forvörn gegn neikvæðum áhrifum sem því miður herja á okkur á hverjum tíma.

Það er ekki síst þess vegna sem við í Framfaralistanum ætlum að skoða að ráðinn verði æskulýðs- og tómstundafulltrúi á kjörtímabilinu til að sinna ungmennum okkar og öðrum skjólstæðingum samfélagsins. Þetta teljum við vera skynsama og jákvæða fjárfestingu í framtíðina.

Aðstaða til íþrótta- og menningariðkunar þarf að stórbatna og ég tel að með uppbyggingu íþrótta- og menningar seturs verði lagður grunnur að raunverulegri lýðheilsustefnu þar sem Flóahreppur gefur félagasamtökum og einstaklingum færi á að bjóða upp á margbreytilega og uppbyggjandi starfsemi.

Menning og gott samfélag.

Menningarhugtakið getur lýst bæði jákvæðum og neikvæðum athöfnum.  Það er hins vegar okkar skylda sem einstaklinga að fylla hugtakið jákvæðri merkingu.  Góðar hugsanir framkalla góð orð sem við færum í góðar athafnir.

Menning er einstök í litlum samfélögum og að henni þarf að hlúa með því að hvetja íbúa til virkrar þátttöku. Einnig með því að skapa vettvang til samveru, fræðslu og skemmtunar.  Menningarnefnd er eitt þeirra verkfæra sem við höfum til að halda uppi skipulagðri menningarstarfsemi.  Ég er stolt af því að hafa farið með formennsku í þeirri nefnd á líðandi kjörtímabili og er  þakklát fyrir samstarfið þrátt fyrir erfiðar aðstæður á tímum heimsfaraldurs.  Það er stefna okkar hjá Framfaralistanum að sameina æskulýðs-, íþrótta- og menningarstarfið.  Þannig teljum við að hægt sé að setja skýrari markmið og ná fram góðri hagræðingu.

Það er markmið mitt sem frambjóðanda að standa vörð um það sem hreif mig sem mest við fyrstu kynni mín af okkar góða samfélagi.  Þar langar mig helst að nefna fjölskyldu- og menningarviðburði þar sem við gleðjumst saman með ábyrgum hætti og með þátttöku ungra sem aldraðra.

Ungur nemur, gamall temur.

Stuttar boðleiðir, lausnamiðuð stjórnsýsla og fjárhagslegur stöðugleiki.

Það er afar mikilvægt að kerfið þjóni fólkinu og ég tel það skyldu mína, hlotnist mér það traust að taka sæti í sveitarstjórn Flóahrepps, að stuðla að lipurð og ráðvendni í þjónustu minni við íbúa sveitarfélagsins.  Stöðugleiki og ábyrg stjórnun er nokkuð sem hafa ber að leiðarljósi í rekstri sveitarfélags og þau gildi er ég einnig tilbúin að varða.  Það væri óábyrgt að líta undan því að kostnaður fylgir framkvæmdum og annarri opinberri þjónustu, þess vegna vil ég með víðsýni leita leiða til að auka atvinnustarfsemi í Flóahreppi og er sannfærð að vel sé hægt að skapa aðlaðandi tækifæri fyrir starfsemi sem skilar okkur arði.

Ég vil hvetja alla kosningabæra að taka þátt í mótun og stjórnun okkar góða Flóahrepps með því að nýta kosningarétt sinn sem er undirstaða lýðræðis.

Merkjum X við I

Með virðingu og vinsemd,

Sigrún Hrefna Arnardóttir.
Ferðaþjónustubóndi, kjóla klæðskeri og frambjóðandi Framfaralistans, 4. sæti.

Nýjar fréttir