3.9 C
Selfoss

Ný stjórn tekur við keflinu

Ný stjórn FKA tók fagnandi á móti sumri og keflinu á aðalfundi FKA sem haldinn var í blíðskapaveðri í Elliðaárdal. Við tekur öflugt starfsár sem framundan er hjá stjórn FKA sem skipuð er sjö konum og tveimur til vara. Á aðalfundi félagsins í vikunni var kosið um þrjú sæti til tveggja ára í stjórn og eitt sæti til eins árs í stjórn. Tvær konur til viðbótar tóku sæti varakonu til eins árs.

Stjórnarkonur sem voru hálfnaðar með kjörtímabil sitt í stjórn og halda áfram eru þær Edda Rún Ragnarsdóttir, Katrín Kristjana Hjartardóttir og formaður FKA Sigríður Hrund Pétursdóttir. Unnur Elva Arnardóttir sem gengt hefur hlutverki varaformanns FKA var endurkjörin í stjórn FKA til tveggja ára og með henni Guðrún Gunnarsdóttir og Dóra Eyland til tveggja ára. Sigrún Jenný Barðadóttir kemur inn sem varakona til eins árs ásamt Írisi Ósk Ólafsdóttur. Elfur Logadóttir var ein í framboð til stjórnar í eitt ár og var því sjálfkjörin.

Vigdís Jóhannsdóttir hefur lokið tveggja ára stjórnarsetu í félaginu og Elísabet Tanía Smáradóttir lokið ári sem varakona stjórnar FKA og þakkar FKA þeim innilega vel fyrir vel unnin störf í þágu félagsins. 

Stjórn FKA 2022-2023 er sem hér segir í stafrófsröð:

Dóra Eyland
Edda Rún Ragnarsdóttir
Elfur Logadóttir (stjórnarkona í eitt ár)
Guðrún Gunnarsdóttir
Íris Ósk Ólafsdóttir (varakona til eins árs)
Katrín Kristjana Hjartardóttir
Sigríður Hrund Pétursdóttir, formaður FKA
Sigrún Jenný Barðadóttir (varakona til eins árs)
Unnur Elva Arnardóttir

Aðalfundur FKA var haldinn með breyttu sniði

Aðalfundur FKA var haldinn með breyttu sniði í ár til að gefa kosningu til stjórnar gott svigrúm. Fundur var settur í rafheimum þann 2. maí þar sem lagabreytingar voru bornar undir félagskonur, þær samþykktar og kynning á framboðum til stjórnar fór fram. Opnað var fyrir rafræna kosningu til stjórnar í lok fundar 2. maí og lauk henni kl. 17.30 þann 4. maí.

Fundarstýra fundar var Berglind Rán Ólafsdóttir framkvæmdastýra ON og formaður Samorku. Ritari fundar var Áslaug Gunnlaugsdóttir lögmaður og eigandi hjá LOCAL lögmönnum. Þökkum við þeim, sem og frambjóðendum, stjórn, OR fyrir frábærar móttökur og öðrum sem komu að framkvæmd fundar og öllum þeim sem hafa tekið þátt í umræðu um lög félagsins sem eru á leiðinni í betri fötin.

Guðný Birna Guðmundsdóttir var formaður Kjörstjórnar og með henni voru þær Laufey Guðmundsdóttir og Katrín Kristjana Hjartardóttir.

Nefndir FKA

Atvinnurekendadeild FKA, LeiðtogaAuður og FKA Framtíð eru deildir félagsins sem eru sjálfstæðar einingar sem skipa eigin stjórn, halda árlega aðalfundi og eigið bókhald. Sex öflugar nefndir eru einnig innan FKA sem eru Alþjóðanefnd, Fræðslunefnd, Golfnefnd, New Icelanders, Nýsköpunarnefnd og Viðskiptanefnd og fer stór hluti starfsemi FKA fram innan þessara nefnda. FKA heldur úti öflugu starfi á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðunum með landsbyggðadeildirnar FKA Norðurland, FKA Suðurland, FKA Suðurnes og  FKA Vesturland en landsbyggðadeildirnar vinna saman og samtalið mikilvægt en megin áherslan er að efla konur á landsbyggðunum og styrkja tengslanet nærumhverfis.

Í dag um 1300 konur í félaginu sem koma úr öllum greinum atvinnulífsins. Fyrir aðalfundinn voru félagskonur hvattar að skrá sig í nefndarstarf og var samþykkt tillaga á aðalfundinum um sex öflugar stjórnir nefndanna innan félagsins. Þátttaka í nefndarstarfi er frábær leið til að hafa áhrif á starfið innan félagsins. Nefndirnar eru ólíkar og eiga að vera það, með föst hlutverk en bjóða uppá ólíka kosti, fræðslu og afþreyingu. Fjölbreyttir fundir og þátttaka í raunheimum og netinu eru hjá félaginu, ólíkar nálganir er leiðarstef nefnda til að mæta ólíkum þörfum kvenna, sérfræðinga um land allt sem eru hluti af öflugu starfi Félags kvenna í atvinnulífinu, FKA.

Að loknum aðalfundarstörfum, í Félagsheimili Orkuveitunnar í Elliðaárda,l seinni daginn var boðið uppá hanastél og vorstemmningu með DJ Sóley. Veðrið var milt og gott og FKA þakkar fyrir kröftugan og krefjandi vetur – hlökkum til að taka fagnandi á móti nýju starfsári.

Sumarið er tíminn

Sumarið er tíminn og enn má finna fjölmarga viðburði á dagskrá félagsins, FKA sumar í vændum, eins og þau gerast best því konur fjölmenna í ferð til Barcelona og Golfferð til Ítalíu á næstunni. Metnaðarfullt erindi FKA má finna á Nýsköpunarviku, ferð verður á Suðurlandinu hjá FKA sem og nærandi stunda á aðalfundum deilda félagsins sem eru á næstu dögum má finna á viðburðadagatali.

Félagskonur taka fagnandi á móti sumri saman – og svo nýju starfsári eftir að hafa tekið heldur betur á kassann á fordæmalausum tímum. Við þurfum að hlúa að okkur, styðja hvora aðra og vera alvöru hreyfiafl – áfram til áhrifa!

                                       Fréttatilkynning frá Félagi kvenna í atvinnulífinu

Fleiri myndbönd