Áskorunin sem við íbúar í Ölfusi stöndum frammi fyrir er sú, að sveitarfélagið okkar stækki ekki aðeins heldur dafni líka. Við á Íbúalistanum viljum bæta kjör fjölskyldna, auka lífsgæði aldraðra og leggja grunn að fjölbreyttu atvinnulífi. Við ætlum að horfa inn á við og hlúa að samfélaginu, styrkja innviði þess og mannauð. Í því samhengi viljum við ráða mannauðsstjóra því mannauður sveitarfélagsins er lykillinn að góðum árangri og mikilvægasta auðlindin sem við eigum, það þarf að hlúa að þessari auðlind. Með því að ráða mannauðsstjóra þá getum við verið með fyrirbyggjandi aðgerðir, eins og að bjóða upp á stuðning og þjálfun fyrir stjórnendur og starfsfólk sveitarfélagsins sem styrkir það, dregur úr álagi og langtímaveikindum starfsfólks.
Íbúalistinn ætlar að auka lífsgæði aldraðra
Það er brýnt að koma málefnum eldri borgara í lag. Við hjá Íbúalistanum ætlum að bæta þjónustuna sem sveitarfélagið veitir og beita okkur fyrir og vera öflugir málsvarar eldri borgaranna okkar þegar kemur að þjónustu sem veitt er af þriðja aðila. Við viljum auka öryggi og lífsgæði eldri borgara. Það sama gildir um fatlað fólk og öryrkja, við viljum vera málsvarar þessara hópa og berjast fyrir bættum hag allra í þessu sveitarfélagi.
Íbúalistinn ætlar að bæta kjör fjölskyldna
Biðlistar fyrir sérfræðiþjónustu innan skóla sveitarfélagsins hafa farið vaxandi síðustu ár og þar þarf að bregðast fljótt við með bættri þjónustu. Grunnskólinn í Þorlákshöfn er til fyrirmyndar á mörgum sviðum og viljum við styðja vel við framþróun og faglegt starf hans og annarra skóla í Sveitarfélaginu Ölfusi. Leikskólinn er mikilvæg grunnþjónusta við fjölskyldur af öllum gerðum. Börnin fá þar fræðslu, þekkingu, umönnun, hlýju, læra félagsfærni og þroskast. Með mikilvægi leikskólans í huga er gagnrýnivert hvernig núverandi meirihluti breytti án nokkurs samráðs, leikskólanum Bergheimum í Hjallastefnuleikskóla. Mikil starfsmannavelta og ör starfsmannaskipti hafa fylgt í kjölfarið og óvissa sem því fylgir. Við á Íbúalistanum ætlum að skapa stöðugleika og öryggi í þessari mikilvægu velferðarþjónustu, flýta byggingu nýs leikskóla eins og kostur er og eyrnamerkja þar ungbarnadeild fyrir börn frá 12 mánaða aldri. Við ætlum að hafa ríkt samráð við foreldra og starfsfólk um stefnu skólans. Við viljum bæta kjör fjölskyldna í sveitarfélaginu, ekki síst barnafjölskyldna.
Samfélagið okkar er fjölbreytt og við viljum draga fram fjölbreytileikann og gera honum hátt undir höfði í gegnum öflugt menningarstarf. Við á Íbúalistanum teljum að það þurfi að endurráða menningar- og samskiptafulltrúa og nýta menninguna betur til að byggja brýr á milli ólíkra hópa og stuðla þannig að blómlegu samfélagi þar sem allir fá að njóta sín.
Íbúalistinn ætlar að leggja grunn að fjölbreyttu atvinnulífi
Við þurfum meiri atvinnu í sveitarfélagið, fjölbreyttari atvinnutækifæri sem gefa fleirum kost á að vinna í heimabyggð. Uppbygging atvinnu á þó ekki að vera á kostnað lífsgæða íbúa, hún á að auka þau. Það er alls ekki hjá því komist að huga þarf betur að umhverfismálum. Markmið ríkisstjórnar Íslands er að landið verði þekkt sem leiðandi á sviði sjálfbærni og þar viljum við að Sveitarfélagið Ölfus sýni frumkvæði og verði ekki eftirbátur annarra sambærilegra sveitarfélaga. Við á Íbúalistanum ætlum að auka samkeppnishæfni Sveitarfélagsins Ölfuss með sjálfbærni að leiðarljósi, sjálfbærni sem tekur til efnahags, samfélags og umhverfis. Við ætlum að skipuleggja og reisa græna iðngarða, svipað og verið er að gera á Akranesi og skapa aðstæður fyrir samfélagslega ábyrg fyrirtæki að koma hingað og starfa, fyrirtæki þar sem meiri þörf er á starfsfólki með sérhæfða menntun. Við ætlum að leggja grunn að fjölbreyttu atvinnulífi.
Sterk og gagnsæ stjórnsýsla
Stjórnsýslan þarf að vera sterk, gagnsæ og yfir allan vafa hafin. Stjórnsýslan þarf að hafa hagsmuni fólksins að leiðarljósi. Þetta viljum við bæta. Það þarf að eiga sér stað aukið samtal og samráð við íbúa í sveitarfélaginu. Íbúalistinn ætlar að lýðræðisvæða sveitarfélagið.
Íbúalistinn samanstendur af ólíku fólki sem hægt er að kynnast betur inn á ibualistinn.is. Við viljum bjóða þér kæri íbúi upp á krafta okkar á komandi kjörtímabili. Við viljum vinna fyrir þig og aðra íbúa í Sveitarfélaginu Ölfusi en ekki að sérhagsmunum fárra. Íbúalistinn vill bæta kjör fjölskyldna, auka lífsgæði aldraðra og leggja grunn að fjölbreyttu atvinnulífi. Finnir þú samleið með okkar gildum og markmiðum þá biðjum við þig að merkja x við H í kosningunum 14. maí.
Ása Berglind Hjálmarsdóttir,
oddviti Íbúalistans