0.6 C
Selfoss

Glænýr stigabíll Brunavarna Árnessýslu

Það var létt yfir fólki þegar nýr, glæsilegur stigabíll var formlega tekinn í notkun hjá Brunavörnum Árnessýslu á Selfossi í liðinni viku.

Bíllinn er á Scania undirvagni og var smíðaður hjá Echelles Riffaud í Frakklandi en sölustjóri fyrirtækisins, Serge Courtot var viðstaddur lyklaafhendinguna. DAGA Fire & Rescue ehf í Reykholti í Biskupstungum sá um innflutninginn og Daníel Halldórsson Apeland afhenti Halldóru Hjörleifsdóttur, stjórnarkonu í Brunavörnum Árnessýslu lyklana af bílnum, sem hafði verið beðið með eftirvæntingu, en nýji bíllinn markar tímamót í brunavörnum Árnessýslu þar sem hann leysir af um 40 ára gamlan körfubíl sem hefur staðið sína plikt fram að þessu.

Nær 33 metra í hæstu stöðu

Nýji bíllinn býður upp á mun fleiri möguleika en sá gamli, en til dæmis getur karfan farið upp mannlaus og slökkviliðsmennirnir fjarstýrt slökkvibúnaðinum frá jörðu niðri á meðan þeir fylgjast með framvindu mála í gegnum myndavélar. „Hann nær 33 metra í hæstu stöðu og getur teygt sig talsvert mikið lengra beint út heldur en gamli bíllinn og eins niður fyrir sig, til dæmis ef við þurfum að bjarga í höfn eða svoleiðis. Svo hefur hann meiri lyftigetu líka, við getum til dæmis tekið bíla uppúr skurði með honum“. Segir Lárus Kristinn Guðmundsson, varaslökkviliðsstjóri.

Eins og fram hefur komið hentar nýji bíllinn í talsvert fleiri aðstæðum en sá gamli, og kemur því til með að verða miklu meira á ferðinni.

Gamli bíllinn segir þeim nýja sögur úr bransanum
Halldóra Hjörleifsdóttir tekur við lyklunum frá Daníel Halldórssyni Apelund.
Pétur Pétursson slökkviliðsstjóri, Daníel Halldórsson Apelund, Serge Courtot, Halldóra Hjörleifsdóttir, Arna Ír Gunnarsdóttir og Gísli Halldór Halldórsson, stjórnarfólk í BÁ ásamt Lárusi Kristni Guðmundssyni varaslökkviliðsstjóra stilla sér upp við nýja bílinn.
Birgir Júlíus Sigursteinsson slökkviliðsmaður bauð Gísla og Halldóru í útsýnisferð.
Bíllinn nær 33 metrum í hæstu stöðu en Gísli og Halldóra voru í öruggum höndum.

 

Fleiri myndbönd