-1.1 C
Selfoss

Það er eitt að geta látið sig reka en annað að stýra í þá átt sem stefnt er að

Ég er sjómannsdóttir og eftir að ég fór í meistaranám í stjórnunarfræðum hef ég alltaf haft gaman að því að notast við samlíkingar sjómennskunnar og stjórnunar. Ætla ég að gera tilraun til að útskýra mál mitt um mikilvægi þjónandi forystu og stefnumótunar þegar kemur að því að stýra sveitarfélagi.

Það er nefninlega eitt að geta látið sig reka en allt annað að stýra í þá átt sem stefnt er að. Það er líka vitað mál að það er ekki eins manns verk að stýra skipi. Það er heldur ekki svo að skipstjóri stýri út frá eigin sannfæringu eða einskærum áhuga sínum á fiskveiðum.

Hann þarf meira en það, hann þarf að hafa hæfni og þekkingu til þess að stýra. Hann þarf að stýra út frá mörgum mismunandi upplýsingum, þótt þær jafnvel stangist á við væntingar hans eða tilfinningar. Hann þarf að taka mark á því sem að honum berst, frá þeim sem vita betur í hverju tilfelli fyrir sig. Líkt og veðurspám, upplýsingum frá öðrum skipum og síðast en ekki síst að hlusta eftir hverju smáatriði bæði frá skipinu sjálfu og skipverjum.

Það vill enginn vera um borð í skipi sem er aðeins látið reka og allra sýst um borð í skipi þar sem skipstjórinn veit einn á hvaða mið er verið að róa. Við viljum vera um borð á skipi sem siglir á þann stað sem við viljum saman fara á.

Setjum stefnumótun á dagskrá með aðkomu sem flestra.

Í samfélögum þarf að vera skýr framtíðarsýn hvað varðar öll helstu málefni samfélagsins. Framtíðarsýn sem er mótuð af fólkinu sjálfu.

Atvinnumálastefna: Vitum við hvaða atvinnugreinar við sem samfélag viljum fá til okkar og hvernig við styðjum við þær sem þegar eru? Fór sú stefnumótunarvinna fram í gegnum deiliskipulagsvinnu sem verið er að vinna og ef svo er hver var aðkoma íbúa, atvinnurekenda og fólksins að þeirri vinnu? Passar sú vinna inn í einhverja heildarmynd um hvernig við sjáum okkur sem samfélag í framtíðinni?

Stefna og áætlun um íbúaþróun: Ætlum við að vera stækkandi samfélag og ef svo er hversu mikið,  hversu hratt og hvernig?

Skólastefna: Hvert stefnum við í skólamálum? Ef við hefðum haft skýrari sýn í skólamálum hefði ef til vill verið hægt að koma í veg fyrir að sameina og slíta skólunum?

Samfélagsstefna: Ætlum við að vera fjölskylduvænt samfélag og ætlum við að vera til fyrirmyndar í málefnum aldraðra og þegar það kemur að fjölmenningu? Vera til fyrirmyndar og vera leiðandi í umhverfismálum? Hvernig viljum við að aðrir og við sjálf upplifum þorpin okkar, skiptir ásýnd og snyrtimennska okkur máli?

Mótum saman sterka sameiginlega sýn

Ef fiskurinn færir sig til þá þarf að stýma á hin nýju mið og leggja veiðarfærin þar. Á fiskiskipi er nefninlega sýnin skýr. Fiskurinn er það sem verið er að elta og þá þarf í sameiningu að finna bestu leiðirnar til þess að ná til hans.

Því þegar við höfum skýra mynd af því hverskonar samfélag við viljum vera er auðveldara að ná þangað. Stefnur verða til bæði í óformlegu og formlegu samtali. Heimastjórnir eða svokölluð hverfisráð sem ná til að mynda yfir ákveðin svæði væri ein góð leið til aukins samtals og stefnumótunar. Virkar nefndir á vegum sveitarfélagsins er önnur leið. Þess til viðbótar er mikilvægt að setja stefnumörkun einfaldlega á dagskrá með aðkomu sem flestra.

Anna Greta Ólafsdóttir,
Skipar 1. sæti Þ-listans í Bláskógabyggð

Nýjar fréttir