-7.3 C
Selfoss

Höfn í Vík í Mýrdal

Vinsælast

Jökulsá er nú almennilega brúuð – en getur hafnleysan í Vík orðið að hafnarstæði?

Fyrir rúmri öld var Jökulsá á Sólheimasandi fyrst brúuð. Þetta höfðu margir talið ómögulega framkvæmd vegna tíðra jökulhlaupa sem menn gerðu ráð fyrir að myndu hrifsa brú með sér í hvert skipti. Þrátt fyrir miklar úrtölur þá var byggð brú árin 1920-1921. Nú árið 2022 verður innan skamms opnuð ný og glæsileg tvíbreið brú yfir Jökulsá sem tryggir öruggar og greiðar samgöngur inn í sveitarfélagið okkar, Mýrdalshrepp.

Nú eru uppi hugmyndir um annað verkefni sem mörgum hefði þótt langsótt fyrir ekki löngu síðan, höfn við Vík í Mýrdal. Bærinn hefur í gegnum tíðina verið kölluð hafnleysa, enda eina sjávarþorp landsins þar sem aldrei hefur verið höfn.

Á síðustu öld voru reglulega viðraðar hugmyndir um hafnargerð við Dyrhólaey. Þar var líka á tímabili útræði, enda er Dyrhólaey eini staðurinn á löngum kafla á Suðurströnd Íslands sem menn sáu fyrir sér að hægt væri að byggja höfn. Þar til nýverið.

Landeyjahöfn var tekin í notkun árið 2010. Síðustu tólf ár hefur gengið misvel að halda henni opinni og menn lent í vandræðum vegna þess að sandur safnaðist inni í höfninni og miklu hefur þurft að kosta til við dýpkun hennar. Draga má heilmikinn lærdóm gerð Landeyjarhafnar sem nýst getur við hönnun nýrrar hafnar austan við Vík.

Nýlega tilkynntu nýir eigendur jarðarinnar Hjörleifshöfða um áform sín um útflutning á vikri úr námu við Hafursey. Áformin eru af þeirri stærðargráðu að þau munu fara í umhverfismat en þó er tímabært að byrja strax að hugsa hvernig best megi standa að slíkri starfsemi.

Ljóst má vera að umfangsmiklir flutningar á vikri eftir þjóðvegum landsins myndu valda talsverðum áhrifum á samfélög á Suðurströndinni. Þess vegna lagði sveitarfélagið til að skoðaðir yrðu kostir þess að gerð yrði höfn við ströndina austan við Vík þar sem skipa mætti út vikrinum. Þetta varð til þess að EP Power Minerals sem standa að áformunum létu vinna fýsileikakönnun um gerð hafnarinnar. Endanlegar niðurstöður liggja ekki fyrir en það er engu að síður til mikils að vinna ef hægt er að losna alfarið við umferð flutningabíla eftir þjóðvegi 1.

Höfn við Vík í Mýrdal gæti orðið gríðarleg lyftistöng fyrir samfélagið hér og orðið til þess að auka mjög fjölbreytni atvinnulífs í sveitarfélaginu, sem er okkar stærsta áskorun. Það getur aldrei orðið sjálfbært til langs tíma að samfélag sé einungis byggt upp á einni atvinnugrein. Mýrdalurinn er og verður áfram ferðaþjónustusamfélag og við þurfum að hlúa að og vernda þá atvinnugrein. Eitt þarf þó alls ekki að útiloka annað. Frumkvöðlar hafa lengi haft áhuga á útgerð héðan frá ströndinni og fyrir ferðaþjónustu gætu mikil tækifæri verið fólgin í hafnargerð. Skemmst er að minnast hjólabáta sem keyrðir voru á haf út fyrir útsýnisferðir.

Stórar hugmyndir þurfa sér oft langan aðdraganda. Þess vegna er ágætt að koma þessum bolta af stað. Við skulum byrja að ræða þessi mál af alvöru, hugsum stórt og verum opin fyrir þeim tækifærum sem okkur standa til boða.

Björn Þór Ólafsson
Drífa Bjarnadóttir
Einar Freyr Elínarson
Efstu 3 frambjóðendur á B-lista Mýrdalshrepps

Nýjar fréttir