-2.7 C
Selfoss

Er uppselt í Árborg?

Morgunblaðið greinir frá því í síðastliðinni viku að geta Selfossveitna til að afhenda heitt vatn til nýbygginga í Sveitarfélaginu Árborg sé komin að þolmörkum. Er þar vísað til bréfaskrifta embættismanna sveitarfélagsins sem virðast ekki eiga aðra leið en slíka til að opinbera áhyggjur sínar af vissulega alvarlegri stöðu.

Þessi staða er með hreinum ólíkindum í ljósi þess hve núverandi meirihluti og bæjarstjóri þeirra hefur hvatt verktaka til aukinnar byggingu íbúða og atvinnuhúsnæðis, vitandi að staða grunn innviða sé í raun ekki að þola slíka uppbyggingu. Það er verulega óábyrgt af þeirra hálfu að hafa ekki hlustað á ráðleggingar starfsmanna sveitarfélagsins í þessum efnum. Það er langt gengið þegar embættismenn eru opinberlega farnir að senda minnisblöð sín á milli til að vekja athygli á stöðunni.

Samkvæmt ábendingum Mannvirkja- og umhverfissviðs Árborgar er nú þegar búið að gefa leyfi fyrir um 549 nýjum íbúðum. Hitaveitukerfið þolir ekki nema um 417 íbúðir. Því er eðlilegt að velta fyrir sér hvert verið sé að stefna. Eða er yfir höfuð til einhver skýr stefna hjá meirihlutanum, þar sem mannvirkja- og umhverfissvið bendir sömuleiðis á að framboð skólahúsnæðis og annarra sambærilegra innviða þurfi að skoða ítarlega í ljósi fjölgunar íbúa og aukinna byggingaráforma í sveitarfélaginu. Og þetta er kallað farsælt samstarf.

Maður veltir því eðlilega fyrir sér hvort yfirvofandi sé framkvæmdastopp í sveitarfélaginu strax á þessu ári. Það hefur grafalvarlegar afleiðingar fyrir stöðu sveitarfélagsins, sem skv. fjárhagsáætlun reiðir sig á áframhaldandi sölu lóða til að mæta útgjaldaaukningu sem virðist óstöðvandi hjá þeim sem nú halda um stjórnartaumana. Gæti slíkt framkvæmdastopp mögulega þýtt að sveitarfélagið verði að endurgreiða lóðir eða verði einfaldlega skaðabótaskylt sé horft til þeirrar fjárfestingar sem fjölskyldur og fyrirtæki hafa lagt í?

Þetta eru vinnubrögð sem D-listinn í Árborg stendur ekki fyrir. Kjörnir fulltrúar eiga að horfa fram á veginn, hlusta á sérfræðinga og fagaðila og hafa ráð þeirra til hliðsjónar við ákvarðanir þegar mótuð er framtíðarsýn, samfélagi okkar og íbúum þess til heilla.

Bragi Bjarnson,
oddviti D-listans í Árborg

Nýjar fréttir