-1.1 C
Selfoss

Opnuðu Konungskaffi óvænt í gær

Nýjasta viðbót í veitingaflóru Selfyssinga opnaði dyr sínar fyrir gestum og gangandi í gær, á fyrsta degi sumars. „Við opnuðum óvænt í gær, við fengum leyfi til þess að opna svo við bara ákváðum að prufa og það gekk alveg ótrúlega vel.“ Segir Sunna Mjöll Caird, annar rekstraraðili hins fallega nýja kaffihúss Konungskaffi, sem opnaði í miðbæ Selfoss í gær.

Ásamt Sunnu kemur Ísak Eldjárn Tómasson að rekstri Konungskaffis, aðspurður um þema staðarins segir Ísak að þau hafi viljað halda í sögu hússins, sem upphaflega var reist á Þingvöllum, rétt fyrir neðan Öxarárfoss vorið 1907 og var ætlað Friðriki 8. Danakonungi til bústaðar í heimsókn hans til Íslands um sumarið. Síðar var húsið leigt út til kaffisölu og gistingar og í því voru haldin réttaböll á haustin. Fyrir Alþingishátíðina 1930 var húsið gert upp og flutt um 200 metrum utan við Valhöll. Var húsið nýtt sem bústaður Kristjáns konungs og Alexandrínu drottningar á Alþingishátíðinni og í kjölfarið tíðkaðist að ráðherrar dveldu í Konungshúsinu að sumarlagi, einkum forsætisráðherra. Sá harmleikur átti sér svo stað sumarið 1970 að Konungshúsið brann í eldsvoða, en þáverandi forsætisráðherrahjónin, Bjarni Benediktsson og Sigríður Björnsdóttir ásamt Bjarna, ungum dóttursyni þeirra fórust í eldsvoðanum.

Ekkert meitlað í stein

Konungskaffi opnar klukkan 9 á morgnana og til stendur að hafa opið til kl. 20, en Sunna og Ísak segja opnunartímann síður en svo meitlaðan í stein og ætla að spila þetta eftir eyranu og stemningu fyrst um sinn, á meðan þau eru að keyra reksturinn af stað. Það sama á við um matseðilinn en með því að halda í sögu hússins sækja þau innblástur til Danmerkur og gamalla íslenskra hefða. Þau bjóða uppá kaffi frá Te & Kaffi, léttvín og bjór og hyggjast prófa sig áfram með ýmsa rétti en á boðstólnum eru meðal annars girnilegar brauðtertur, beyglur, lagtertur, kleinur, snúðar og að sjálfsögðu ómótstæðilegt smørrebrød.

Lesendur geta fylgst með helstu fréttum frá Konungskaffi á instagram og hér að neðan má sjá nokkrar myndir af þessu fallega kaffihúsi sem Sunnlendingar hafa beðið spenntir eftir.

Myndirnar tók Helga Guðrún Lárusdóttir, blaðamaður Dagskrárinnar

Fleiri myndbönd