-1.6 C
Selfoss

Vel heppnaður aðalfundur Veiðifélags Þjórsár

Aðalfundur Veiðifélags Þjórsár var haldinn á Stracta Hótel á Hellu, þriðjudaginn 12. apríl sl.

Brösulega hefur gengið undanfarin ár að halda aðalfundi, og í tvígang hefur veiðifélagið þurrft að fresta boðuðum fundum vegna Covid faraldurs og veðurs. Og það er bæði kostnaðarsamt og mikil vinna að senda út fundarboð í ábyrgðarpósti, kostar mörg hundruð þúsund að boða hvern aðalfund.

En nú gekk allt upp og fundurinn fór vel fram við prýðilegar aðstæður á Stracta Hótel. Í upphafi fundar minntust fundarmenn látins félaga, Einars Haraldssonar bónda á Urriðafossi í Flóa, sem féll frá vorið 2021, en hann hafði verið í stjórna Veiðifélags Þjórsár samfellt frá 1986.

Fjölmörg mál voru rædd og afgreidd, þar ber helst að nefna nýjar samþykktir fyrir Veiðifélag Þjórsár þar sem meðal annars er kveðið á um stækkun vatnasvæðis félagsins. Því laxastígi við Búðafoss frá 1991 hefur gert það að verkum að umtalsvert svæði opnast fyrir laxfiska, sem nú hafa numið vatnasvæðið frá Búða uppað Þjófafossi og ganga sum árin yfir 2000 laxfiskar upp Búðafossteljarann og hrygna þar fyrir ofan.

Annað merkilegt mál sem afgreitt var á fundinum er svo kölluð Nýtingaráætlun fyrir Þjórsá, sem rædd var ýtarlega og síðan vísað til stjórnar Veiðifélags Þjórsár og Fiskistofu/Hafrannsóknarstofu til lokaafgreiðslu.

Veiðitilhögun á sumri komanda var rædd og ákveðið að fara eftir Nýtingaráætlun Veiðifélags Þjórsár, hvað varðar upphaf og lok veiða.

Magnús Jóhannsson frá Hafrannsóknarstofnun flutti fróðlegt erindi um fiskrannsóknir á vatnasvæði Þjórsár, en þær rannsóknir hafa verið stundaðar um áratuga skeið í samvinnu við Landsvirkjun. Þjórsárlaxastofninn er stærsti laxastofn í Íslenskum ám, og stofninn telur að jafnaði um 10.000 laxa. Sagði Magnús að seiðabúskapur Þjórsár væri almennt í góðu standi, og gæfi það vonir um góða veið á sumri komanda.

Þá var ný stjórn Veiðifélags Þjórsár kosin og hana skipa:

Oddur Bjarnason, Stöðulfelli. Daníel Magnússon, Akbraut. Valdimar Bragason, Selfossi. Erlendur Ingvarsson, Skarði. Haraldur Einrsson, Urriðafossi. Jón Árni Vignisson, Skálmholti. Ísleifur Jónasson, Kálfholti. Stjórnin á eftir að skipta með sér verkum.

VBr.

Fleiri myndbönd