-1.6 C
Selfoss

Enginn hengdi bakara fyrir smið í rosalegu einvígi starfsmanna Pálmatrés

Vinsælast

Á síðasta vinnudegi dymbilvikunnar fór fram hörkuspennandi úrslitaeinvígi í kökubakstri hjá starfsmönnum Pálmatrés.

Keppnin, sem hefur verið með svokölluðu útsláttarsniði, hefur staðið yfir í ríflega fjóra mánuði og hafa starfsmenn notið góðs af því að fá að smakka kökur og kjósa þá betri af tveimur frá allavega 20 keppendum á keppnistímabilinu og ætti það ekki að fara framhjá nokkrum manni að mikið var í lagt og metnaðurinn mikill fyrir þessu verkefni, enda kökurnar hinar glæsilegustu.

Bakarasmiðirnir sem háðu úrslitaeinvígið voru þeir Gísli Þór Brynjarsson og Pétur Pálmason, en þeir höfðu lagt alla andstæðinga sína að velli fram að úrslitastundu.
Dómnefndina skipuðu eigendur GK bakarís, þeir Guðmundur Helgi Harðarson og Kjartan Ásbjörnsson, ásamt fulltrúa verkamannsins, Herði Óla Guðmundssyni.

Mjótt var á munum, en að lokum fór þó svo að Gísli Þór stóð uppi sem sigurvegari og hlaut titilinn Bakarameistari Pálmatrés 2022.

Þeir Gísli og Pétur studdust við uppskrift frá strákunum í GK Bakaríi sem þeir deila hér góðfúslega með lesendum okkar, þessa verða allir að prófa!

Kökubotnar:

2 egg
2 dl sterkt kaffi
2,5 dl súrmjólk
1,25 dl matarolía
200 gr hveiti
420 gr sykur
85 gr kakó
1 tsk lyftiduft
2 tsk matarsódi
1 tsk salt
1 tsk vanillusykur / dass af  vanilludropum

Ofninn er hitaður í 160 gráður á blæstri.
Þrjú bökunarform, 20 cm í þvermál eru smurð að innan (gott er að sníða bökunarpappír í botninn til að auðvelda losun).
Eggjum, kaffi, matarolía og súrmjólk hrært saman í stutta stund. Því næst er þurrefnum bætt í og hrært þar til blandan er orðin kekklaus.
Deiginu er skipt í formin þrjú og bakað í sirka 35 mínútur.
Athugið að botnarnir munu líta út fyrir að vera blautir !
Botnarnir látnir kólna á meðan kremið er búið til. (Gott er að stinga botnunum aðeins inn í frysti áður en kakan er sett saman)

Sósa:

100 gr ber eða ávöxtur að eigin vali
100 gr sykur
Tæp msk maizena mjöl
60 gr vatn

Öll hráefni sett í pott. Hitið blönduna að suðu og lækkið þá hitann og hrærið vel í blöndunni í um þrjár mínútur.  Blandan skal kæld niður fyrir notkun (ath: má gera deginum áður). Hægt er að notast við frosin  ber/ávexti.

Krem:

500 gr Mascarpone ostur
3 dl rjómi
2,5 dl SÓSA
120 gr sykur
Tveir dropar af vanilla

Rjóminn er þeyttur og stungið í ísskáp á meðan mascarpone osturinn, sykurinn og vanillan er þeytt saman.
Þeytta rjómanum og sósunni er hrært varlega saman við ostakremið.
Hægt er að skipta Mascarpone ostinum út fyrir rjómaost – en það breytir bragði og áferð örlítið.

Súkkulaðihjúpur

175 gr suðusúkkulaði
½ dl rjómi
1 msk smjör
1msk síróp

Öll hráefnin eru hituð saman í potti við vægan hita.  Gott er að hræra í blöndunni öðru hvoru þar til hún er orðin slétt og samfelld.  Þá er súkkulaðiblandan tekin af hitanum og leyft að kólna þar til hún hefur þykknað passlega mikið.  Blöndunni er svo hellt yfir kökuna og hún látin leka niður með köntunum.

Hægt er að leika sér með samsetningu á súkkulaði, s.s: skipta út hluta af súkkulaðinu fyrir t.d appelsínusúkkulaði.

Uppskriftin er fyrir eina köku.
Kökubotnarnir eru blautir – svo hér þarf að hafa auga með því að baka þá nógu mikið, en alls ekki of lengi svo þeir þorni ekki upp.

Kakan má vera hringlótt, ferkönntuð, þríhyrnd eða hvernig sem listagyðjan blæs ykkur innblástur í brjóst.
Kakan skal vera þriggja laga, s.s
Botn – krem – botn – krem – botn – og að endingu hjúpuð (þakin) kremi.Mælt er með að gera kökuna deginum áður og leyfa henni að standa í kæli yfir nótt svo botnarnir dragi í sig raka og bragð og kremið fái að taka sig.

Mælt er með að skreyta hana samdægurs ef hægt er.

Nýjar fréttir