Stjórnendur Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri óskuðu eftir því, síðla haust 2021, við umsjónarmann fasteigna hjá sveitarfélaginu Árborg að gerð yrði loftgæðaúttekt á húsnæði skólans á Eyrarbakka. VerkfræðistofanEfla var fengin til verksins og bárust niðurstöður í janúar 2022. Í niðurstöðum kom fram að myglu væri að finna í húsnæðinu og í kjölfarið var ákveðið að ekki væri forsvaranlegt að halda úti starfsemi í húsunum á Eyrarbakka. Í skólahúsnæðinu fór fram kennsla 7.-10. bekkja auk þess sem þar var aðstaða fyrir kennara í undirbúningi, rými fyrir sérkennslu og matsalur. Í febrúar 2022 bárust stjórnendum Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri drög að skýrslu frá verkfræðistofunni Eflu um niðurstöður loftgæðarannsóknar sem fram fór á gamla skólahúsnæðinu á Stokkseyri en skólastjórnendur óskuðu eftir rannsókninni í kjölfar niðurstaðna um myglu sem fannst ískólahúsnæðinu á Eyrarbakka. Í ljós kom að myglu væri einnig að finna í gamla húsnæðinu á Stokkseyri. Þar fór fram tónmennta-, leiklistar- og heimilisfræðikennsla, starfsemi frístundarheimilis Stjörnusteina og starfsemi Zelsíus félagsmiðstöðvar auk þess sem þar voru geymslur og þvottaaðstaða fyrir skólann.
Íbúafundur var haldinn þriðjudaginn 8. mars 2022 í Samkomuhúsinu Stað á vegum sveitafélagsins Árborgar að tilstuðlan Hverfisráði Eyrarbakka eftir fjölda áskorana. Þar voru flutt erindi frá bæjarfulltrúum, skólastjóra og íbúumEyrarbakka og Stokkseyrar. Í erindum íbúa kom fram skýr vilji til þess að fundin yrði lausn á húsnæðisvanda skólans hið fyrsta í báðum þorpum og kallað eftir upplýsingum um hvar málið væri statt. Ekki gafst tími til umræðu og spurninga að loknum erindum.
Skólaþing var haldið þriðjudaginn 15. mars 2022 í skólahúsnæðinu á Stokkseyri á vegum sveitafélagsins Árborgar. Fengnir voru ráðgjafendur frá RR Ráðgjöf sem stýrðu fundinum. Íbúum fannst fátt um svör við húsnæðisvanda Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri og upplifðu ekki að bæjarstjórnendur hefðu vilja til þess að upplýsa íbúa um stöðu mála og upplifðu jafnframt reiði vegna ónægra upplýsinga og lítils samráðs varðandi staðsetningu bráðabirgðaskólahúsnæðis og framtíðarhúsnæðis skólans en íbúar telja að skólahúsnæði í báðum þorpum sé mikilvægt fyrir byggðaþróun beggja þorpa.
Opinn umræðufundur íbúa var haldinn sunnudaginn 20. mars 2022 fyrir tilstuðlan aðgerðarteymis um skólamál á Eyrarbakka. Þar fóru fram frjálsar umræður og skoðanaskipti íbúa varðandi skólamál á Eyrarbakka. Niðurstaða fundarins var tekin saman í ályktun íbúafundarins auk þess sem ákveðið var að safna undirskriftum íbúa þar sembæjarstjórnendur eru hvattir til að byggja upp bráðabirgðahúsnæði og framtíðarhúsnæði á Eyrarbakka auk þess að klára að fullgera skólahúsnæði á Stokkseyri.
Með þessu bréfi boðar aðgerðarteymið til móttöku undirskriftarlista íbúa vegna skólahúsnæðis Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri, mánudaginn 11. apríl 2022, klukkan 17 við skólahúsnæðið á Eyrarbakka.
Fyrir hönd aðgerðarteymis um skólamál á Eyrarbakka,
Drífa Pálín Geirs, Esther Helga Guðmundsdóttir, Guðmundur Ármann Pétursson og Vigdís Sigurðardóttir