-6.5 C
Selfoss

Skýr framtíðarsýn D-listans – Árborg okkar allra

Vinsælast

Tekjustofnar sveitarfélaga

Samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga eru þeir helstir útsvar, fasteignaskattur og framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, en auk þess innheimta sveitarfélögin ýmsar þjónustutekjur og tekjur af eigin stofnunum og fyrirtækjum. Útsvar er einn veigamesti tekjustofn sveitarfélaga og því er mikilvægt að styrkja hann eins og hægt er.

Atvinnutekjur á hvern íbúa

Þegar atvinnutekjur á hvern íbúa í Árborg eru skoðaðar má sjá að þær eru undir meðaltali á landsvísu, en samkvæmt heimildum frá Byggðastofnun var meðaltal atvinnutekna á hvern íbúa á landinu öllu árið 2020 kr. 3.691.941 en kr. 3.202.727 í Sveitarfélaginu Árborg, sjá mynd 1.

Mynd 1.

 

Langstærstur hluti atvinnutekna sveitarfélagsins kemur úr flokknum opinber stjórnsýsla, fræðslustarfsemi, heilbrigðis- og félagsþjónusta og því næst heild- og smásöluverslun og viðgerðir á vélknúnum ökutækjum. Það er því mikilvægt að horfa til aukinnar fjölbreytni með nýsköpun og aðlaðandi umhverfi fyrir hátæknifyrirtæki um leið og efla þarf skapandi greinar og þriðja geirann.

Sveitarfélagið þarf að fara í stefnumörkun og leggja skýrar línur varðandi uppbyggingu atvinnulóða og laða að ný fyrirtæki með markvissum hætti auk þess að eiga samtal við þau sem fyrir eru. Mikilvægt er að vera í góðu samstarfi við háskólasamfélagið og skólasamfélagið allt svo að ýta megi undir nýsköpun, en þar þarf sveitarfélagið sjálft að vera leiðandi og skapa nýsköpunaranda meðal starfsfólks og innan stjórnsýslunnar.

Mikilvægt er að laða að sér fjölbreytta starfsemi fyrirtækja og búa þeim hagstætt rekstrarumhverfi. Skoða þarf lækkun á álögum, en fasteignagjöld eru íþyngjandi fyrir fyrirtæki sem og íbúa á svæðinu og möguleg fyrirstaða þeirra sem líta til Sveitarfélagsins Árborgar með framtíðarstaðsetningu í huga. Markmið stefnumótunar sveitarfélagsins ætti að vera að gera svæðið að framúrskarandi vettvangi fyrir fjölbreytt og kröftugt atvinnulíf, nýsköpun og hvers kyns framtakssemi íbúa.

Sveitarfélagið Árborg á að ýta undir fjölbreytta atvinnuþróun og þar með styrkja hlutverk sitt sem stærsti þéttbýliskjarninn á Suðurlandi, en fjölbreytt atvinnulíf verkar sem togkraftur á vel menntaðar kynslóðir sem eru að koma inn á vinnumarkaðinn, sem aftur eykur útsvar og þar með tekjur sveitarfélagsins.

Tækifærin í Sveitarfélaginu Árborg eru sannarlega til staðar og hvetjum við þig til að mæta á opna fundi á laugardögum í Risinu, miðbæ Selfoss kl.11:00 og kynna þér enn betur þær áherslur og lausnir sem flokkurinn vill standa fyrir til að tryggja skýra framtíðarsýn fyrir sveitarfélagið. Við viljum eiga samtal við þig!

Einnig er hægt að fylgjast með á Facebooksíðunni „D-listinn í Árborg“ og á Instagram.

Fjóla St. Kristinsdóttir,
2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Árborg 

Árborg okkar allra – þar sem þú skiptir máli 

Nýjar fréttir