-6.6 C
Selfoss

Framtíðin er í Flóahreppi

Nú líður senn að sveitarstjórnarkosningum. Þá gefst kjósendum kostur á að velja sér þá fulltrúa sem þeir treysta best til að fara með stjórnun, ákvarðanatöku og fjárheimildir síns sveitarfélags til næstu fjögurra ára.  Þetta val skiptir máli – miklu máli!
Í Flóahreppi búa rétt um 700 íbúar, lítið á landsmælikvarða en engu að síður vaxandi sveitarfélag á svo margvíslegan hátt. Hér hefur íbúum fjölgað jafnt og þétt síðustu árin.

Leikskóli og grunnskóli hafa byggst upp og staðan orðin sú að huga þarf að stækkun á báðum stöðum til að mæta nauðsynlegri þjónustu og innviðum sem snúa að börnum í sveitarfélaginu. Komin er framtíðarsýn varðandi uppbyggingu íþrótta- og samkomuhúss sem nýtast mun íbúum sveitarfélagsins á öllum aldri. Þessari framtíðarsýn, sem helst í hendur við uppbyggingu innviða og þjónustu, þarf að fylgja vel eftir og á skynsaman hátt með réttri forgangsröðun.  Það sem kann að ýta við og hraða þessari uppbyggingu eru áform um uppbyggingu í formi íbúðabyggðarásamt hugmyndum um byggðakjarna  við Þingborg á landi sveitarfélagsins. Allt eru þetta hugmyndir um jákvæðar breytingar sem geta skilað sveitarfélaginu sterkari tekjustofni til lengri tíma litið.

En það er ekki bara fjölgun íbúa sem er í vexti heldur sjáum við fjölbreytta atvinnustarfsemi blómstra víða í sveitarfélaginu okkar. Fyrirtæki í iðngreinum, þjónustu- og framleiðslufyrirtæki og ferðaþjónusta ásamt fjölbreyttum landbúnaði eru dæmi um atvinnustarfsemi sem sum hefur sprottið upp síðustu árin. Sveitarfélagið þarf að hlúa vel að fjölbreyttri atvinnustarfsemi, ýta undir fjölgun starfa innan sveitarfélagins og stuðla að atvinnuþátttöku og fjölbreytni í störfum. Það er einn af grunnþáttum hvers samfélags að íbúar búa við sem mest atvinnuöryggi. Í þessu samhengi þarf einnig að líta til þeirrar staðreyndar að samsetning íbúa í dreifbýli og atvinna þeirra hefur breyst síðustu árin. Í Flóahreppi er meðalaldur íbúa 38,3 ár og sækja þeir margir vinnu utan sveitarfélags sem kallar á breyttar þarfir og þjónustu.

Aukin þáttaka í íþrótta og æskulýðsstarfi

Þá er mikilvægt að stuðla að því að börn, ungmenni og íbúar með sérstakar þarfir í sveitarfélaginu búi við jafnræði þegar kemur að því að stunda íþróttir, tómstundir og annað félagsstarf.  Með því að stuðla að aukinni þátttöku í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi skapast góður undirbúningur fyrir lífið og þannig eflum við einnig forvarnir. Við þurfum að gera það sem við getum til að börn og ungmenni í sveitarfélaginu feti rétta braut í lífinu og styðja við fjölskyldur eins og mögulegt er til að svo verði og er samfella í námi og tómstundum barna mikilvægur þáttur til að ná fram þeim markmiðum.  Frekari uppbygging innan okkar sveitarfélags getur haft mikið að segja við að efla þátttöku barna, ungmenna og eldra fólks í sveitarfélaginu. Það eru tækifæri í byggingu íþrótta- og samkomuhúss, frekari eflingu á félagsstarfi fyrir íbúa á öllum aldri og í stuðningi sveitarfélagsins við uppbyggingu á útisvæðum innan sveitarfélagsins til að efla almenna lýðheilsu.

Flóahreppur hefur staðið framarlega að mörgu leyti þegar horft er til umhverfismála. Við vorum með fyrstu sveitarfélögum landsins til að fara í flokkun á sorpi og höfum staðið okkur ágætlega þar. En betur má ef duga skal. Við þurfum að horfa á leiðir til að stuðla enn frekar að umhverfisvitund íbúa sveitarfélagsins, til dæmis með því að bæta okkur enn frekar í sorpflokkun en einnig með því að skoða hvernig við getum orðið sjálfbærara og umhverfisvænna samfélag. Flóahreppur á að vera sveitarfélag sem leggur áherslu á að vera umhverfisvænt, heilsueflandi og aðlaðandi staður til að búa á og heimsækja. Við getum gert enn betur í að kynna sveitarfélagið sem spennandi áfangastað með uppbyggingu á opnum svæðum sveitarfélagsins og frekari kynningu á áhugaverðum og sögulegum stöðum.

Flóahreppur varð til árið 2006 við sameiningu þriggja sveitarfélaga. Hér er ég fædd og uppalin en í dag bý ég í Flóahreppi ásamt 698 sveitungum mínum. Ég ber hag alls sveitarfélagsins fyrir brjósti og vil að við höldum áfram að efla og styrkja sveitarfélagið og gera það að áhugaverðum áfangastað og búsetukosti þar sem þjónusta og innviðir haldast í hendur við fjölgun íbúa. Brennandi áhugi á samfélgsmálum þarf að vera til staðar þegar fólk gefur sig fram á lista til sveitarstjórnarkosninga. Íbúarnir mynda allir eitt og sama sveitarfélagið og ég trúi því að þeir sem gefa sig fram til að taka að sér þessi verkefni geri það af heilindum og með þarfir og framtíðarsýn alls sveitarfélagsins í huga.

 

Hulda Kristjánsdóttir skipar 2. sæti á Framfaralistanum í Flóahreppi

Nýjar fréttir