-6.5 C
Selfoss

Með mold á hnjánum – sýning um garðyrkju í Árnessýslu

Vinsælast

Sýningin Með mold á hnjánum sem fjallar um garðyrkju í Árnessýslu var opnuð í Húsinu á Eyrarbakka laugardaginn 9. apríl.
Á sýningunni er stiklað á stóru yfir sögu og þróun garðyrkju í sýslunni. Rakin er þróun ræktunar frá heimagörðum torfbæja upp í umfangsmikla atvinnugrein sem skapar fjölda manns atvinnu með hugvitsamlegri nýtingu náttúruauðlinda. Fjallað er um heimagarða, blómagarða, ylrækt og útiræktun svo eitthvað sé nefnt.  Garðyrkja hefur stuðlað að uppbyggingu þéttbýlis og haft mikil áhrif á byggðaþróun í sýslunni. Sýning er unnin af skjalavörðum Héraðsskjalasafns Árnesinga, að stærsta hluta upp úr safnkosti.

Safnið er opið milli 13:00 og 17:00 alla daga fram til 24. apríl. Sumaropnun byggðasafnsins hefst 1. maí og verður áfram hægt að skoða þessa vorlegu sýningu fram til 6. júní og allir eru velkomnir.

Sýningin er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurlands.

Fréttatilkynning frá Byggðasafni Árnesinga

Ljósmyndin er tekin í Garðyrkjuskólanum á Reykjum árið 1949. Þarna er hópur fólks að sækja mold og færa inn í gróðurhús.
Jón Eiríksson í Vorsabæ á Skeiðum virðir fyrir sér blómkálshaus.
Kona að vinna í flagi. Mögulega Margrét Gissurardóttir frá Byggðarhorni

Nýjar fréttir