4.5 C
Selfoss

Mamma spyr barnabörnin hvort þau séu búin að lesa

Vinsælast

Segir lestrarhesturinn Tinna Rut Torfadóttir

Tinna Rut Torfadóttir er fædd og uppalin í Njarðvík en hefur búið í Hveragerði frá þrettán ára aldri og er þar enn. Tinna er með B.Ed gráðu í kennslufræðum, B.A gráðu í sálfræði og Cand.Psych gráðu í klínískri sálfræði frá Háskóla Íslands. Áður starfaði Tinna sem umsjónarkennari í Sunnulækjarskóla frá 2007-2015 en starfar í dag sem sálfræðingur hjá Sveitarfélaginu Árborg ásamt því að reka Sálfræðistofuna Sálarlíf á Selfossi að Austurvegi 42 sem sinnir greiningu og meðferð fyrir börn, unglinga jafnt sem fullorðna einstaklinga.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Núna er ég að lesa Barnið í garðinum en um er að ræða sjálfsævisögulega bók eftir lögmanninn Sævar Þór Jónsson. Í bókinni fer Sævar Þór yfir erfiða æsku, áföll fíkn og misnoktun. Þá er ekki langt síðan ég lauk við bókina Án filters eftir Björgvin Pál Gústavsson, þar sem hann lýsir uppvexti sínum við erfiðar aðstæður, haldreipinu sem hann fann í handboltanum og áratuga feluleiknum sem á endanum varð til þess að hann hrundi líkamlega og andlega og því bataferli sem tók við. Þá er ég alltaf að lesa ýmsar sálfræðibækur sem tengjast vinnunni minni en ég fylgist vel með þeim bókum sem gefnar eru út í tengslum við starf mitt og er dugleg að kaupa þær bækur og lesa. Þá er starf mitt sem sálfræðingur þannig að það kallar á ýmsa endurmenntun, ýmsar ráðstefnur, námskeið og fleira og því er ég oft að lesa greinar, rannsóknir og þess háttar. Þá er bókin Hollráð Hugos, hlustum á börnin okkar tekin upp reglulega og lesin aftur og einnig er ég nýbyrjuð á bókinni Think like a monk: train your mind for peace and purpose every day eftir Jay Shetty.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Til mín höfða einna helst ævisögur eða bækur byggðar á sönnum atburðum sem segja frá erfiðri lífsreynslu. Þá finnst mér sjálfshjálpar bækur mjög áhugaverðar og nytsamlegar, í rauninni allar bækur sem tengjast sálfræði og sjálfsrækt.

Segðu okkur frá lestraruppeldi þínu.

Ég var orðin fluglæs mjög snemma og fékk mikið og gott lestraruppeldi. Mamma mín er kennari og algjör lestrarhestur. Þegar ég var mjög ung að aldri var mamma búin að plasta og hengja upp á vegg allt stafrófið ásamt myndum og orðum, því ég var farin að spá í stafi og orð mjög snemma. Hún las alltaf mjög mikið fyrir mig og lagði mikið upp úr lestrarnámi. Ég fór mjög ung að venja komur mínar á bókasafnið og las mikið. Fékk iðulega bækur í afmælis- og jólagjafir. Þá lét mamma mín – handlagna pabba minn – hanna og smíða risastóra bókahillu sem þakti vegginn inn í herberginu mínu og þar kom ég fjölda bóka fyrir. Mamma heldur áfram að halda að okkur bókum, því í hvert sinn sem ég hitti hana þá segir hún: ,,Tinna, þú verður að lesa þessa bók sem ég er að lesa núna“. Einnig ef hún kemur í heimsókn til okkar systkinanna þá spyr hún barnabörn sín gjarnan hvort þau séu búin að lesa heima og hlustar á þau lesa og þar skiptir fjarlægðin ekki máli, því þá er bara lesið fyrir ömmu í gegnum Face Time. Ég las svo margar bækur í æsku að ég á erfitt með að velja. En bækurnar eftir Þorgrím Þráins voru í uppáhaldi, Með fiðring í tánum, Tár, bros og takkaskór, Mitt er þitt, Bak við bláu augun. Ég held að ég hafi lesið allar bækurnar sem komu út eftir hann á þessum tíma. Þá fannst mér einnig mjög gaman að lesa og skoða ættfræðibækur þegar ég var yngri, hafði mikinn áhuga á skyldleika og fannst gaman að sjá hverjir tilheyrðu sömu ætt og ég.

En lestrarvenjurnar?

Undanfarin ár hef ég eytt mörgum árum í háskólanám og þá hafa áhugaverðar skólabækur átt hug minn allan og aðrar bækur því vikið til hliðar. En í dag tek ég skorpur, dett ofan í eina og eina bók. Einna helst gríp ég í yndislestur þegar ég er komin upp í rúm á kvöldin, því dagarnir eru oft ansi annasamir. Mér finnst lestur mjög róandi og notalegur eftir líflegan dag.

Áttu þér uppáhaldshöfund?

Nei, í rauninni á ég mér ekki neinn uppáhalds höfund. Vel ekki bækurnar eftir höfundinum, heldur meira hvort efnið heilli mig.

Hefur bók einhvern tímann rænt þig svefni?

Ég er svo svakalega kvöldsvæf og sofna um leið og ég leggst á koddann. Svo það hefur því miður ekki gerst. Stundum næ ég einungis að lesa hálfa blaðsíðu og þá er ég sofnuð.

En að lokum frænka, hvernig bækur myndir þú skrifa sem rithöfundur?

Ég myndi ábyggilega skrifa ævisögur eða sögur byggðar á sönnum atburðum. Ég hef mikinn áhuga á öðru fólki og lífshlaupi fólks, hvað það hefur áorkað í lífinu og hvaða lífsreynslu það býr yfir. Kannski var það ástæðan fyrir því að ég ákvað að mennta mig sem sálfræðingur. En ég veit að ég myndi alls ekki skrifa ævintýrabækur eða bækur sem fjalla um yfirnáttúrulega atburði, hef ekki mikinn áhuga á slíku. Ég hef til að mynda aldrei lesið bækurnar um Harry Potter eða eitthvað í þeim dúr. Efnið þarf að vera byggt á einhverju raunverulegu svo það heilli mig.

Umsjón með Lestrarhesti hefur Jón Özur Snorrason (jonozur@gmail.com)

Nýjar fréttir