-0.5 C
Selfoss

Framtíðin er núna

Axel Sigurðsson.

Fæstum kemur á óvart að komi dagur eftir þennan dag. Á því má samt má finna undantekningar og helst þær sé að finna í stjórnmálum. 

Það er ábyrgðarhluti að stýra sveitafélagi. Góður rekstur skilar íbúum ábata á meðan offjárfestingar og óábyrg kosningarloforð um gull og græna skóga valda hallarekstri og kergju, enda um að ræða loforð sem ekki er hægt að efna. 

Verum raunsæ 

Rekstur sveitafélagsins Árborgar er þungur sem stendur. Mikil loforð með glansmyndum eru áferðarfalleg, en ekki raunsæ þegar sveitafélagið siglir í gegnum hraðan vöxt.  

Síðasti birti ársreikningur sveitarfélagsins, sem er fyrir árið 2020, sýnir tæplega  milljarðs tekjuhalla á A-hluta (949,4 millj. kr.), en það er sá hluti sem fjármagnaður er með skatttekjum. Þegar B-hlutinn, með fyrirtækjum bæjarins, er tekinn með nemur heildarhalli á rekstri sveitafélagsins  578,4 milljónum króna árið 2020. Viðbúið er að hallinn hafi aukist á síðasta ári og ámælisvert verði ársreikningur ekki birtur tímanlega fyrir sveitastjórnarkosningarnar í vor.

Sá rekstrarsnillingur sem getur lagað þennan halla á einni nóttu er ekki til, heldur verður það langhlaup að lagfæra tekjuhalla sveitafélagsins.  

Áskorun sem þessi er ekki óyfirstíganleg, en hún krefst framsýni, lausnamiðaðrar hugsunar og aga af hálfu bæjarfulltrúa. 

Lög gera ráð fyrir að tekjustofn A-hluta sveitafélaga sé þríþættur, að tekjur fáist frá útsvari, fasteignagjöldum og úr Jöfnunarsjóði sveitafélaga. B-hluti, þar sem er að finna fyrirtæki í eigu sveitarfélagsins, er svo fjármagnaður með öðrum tekjustofnum en þar liggur eitt helsta sóknarfæri sveitafélaga til að styrkja rekstrargrundvöll sinn. 

Þá er staðan þannig í dag að við litlu er að búast frá ríkisstjórninni, þar sem upp á ríkið stendur að skilgreina betur tekjustofna sveitafélaga. Því er viðbúið að skuldahlutfall sveitafélagsins muni vaxa enn meðan við stöndum í jafn umfangsmikilli innviðauppbyggingu og raun ber vitni. 

Svo uppsker sem sáir 

Við hjá Áfram Árborg, framboði Viðreisnar, Pírata og óháðra leggjum áherslu á fjölgun tekjustofna fyrir sveitafélagið, á gagnsæi í rekstri með opnu bókhaldi til að tryggja að stöðugt aðhald með rekstri sveitafélagsins og að sjóður sveitafélagsins rétti fyrr úr kútnum til að hægt verði að ráðast í markvissar fjárfestingar í innviðum. 

Skýr sýn á samfélagið, með auknu atvinnuframboði og uppbyggingarmöguleikum á svæðinu, kemur íbúum til góða ásamt því að það styður við rekstur sveitafélagsins og er þannig öllum til hagsbóta. 

Þess vegna leggjum við áherslu á fjölgun tekjustofna, til dæmis með opnun skrifstofu-hótela, deilieldhúss fyrir matvælaframleiðendur, atvinnuhúsnæðis fyrir nýsköpunarfyrirtæki og fyrir fólk sem vantar tækifæri til að hefja rekstur. Til þessa má nota eitthvað af þeim rúmlega 500 lóðum sem sveitafélagið á. 

Næsta ár kemur fyrr en mann grunar, hefjum vinnuna núna til aukinna tækifæra og velsældar í Árborg. 

Framtíðin er núna.

Axel Sigurðsson
Höfundur skipar 2. sæti Áfram Árborgar

Nýjar fréttir