Þegar skóladegi barnanna okkar líkur hefst frábært starf í frístundaheimilum um land allt. Meginhlutverk frístundaheimila fyrir 6-9 ára börn er að bjóða þeim innihaldsríkt frístunda- og tómstundastarf í barnvænu og skapandi umhverfi þar sem starfshættir einkennast af frjálsum leik og vali. Með það að aðalmarkmiði að efla sjálfstraust og félagsfærni þeirra. Umhverfi starfsins á að einkennast af öryggi, fagmennsku og virðingu þar sem jákvæð samskipti og lýðræðislegir starfshættir eru í hávegum hafðir í samræmi við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Frístundaheimilið Stjörnusteinar
Á Stokkseyri er að finna frístundaheimilið Stjörnusteina. Það er opið alla virka daga frá klukkan kl. 13:15 – 16:30. Á starfsdögum, foreldradögum og flestum þeim dögum sem frí er í skólanum er opið kl. 8:00 – 16:30. Á opnunartíma leitast starfsfólkið við það að sinna faglegum skyldum sínum, efla börnin okkar í félagsfærni, leika við þau og gæta þeirra svo við getum sótt okkar vinnu, svo fátt eitt sé nefnt.
Nú í febrúar þegar myglan uppgötvaðist í gamla húsnæði skólans á Stokkseyri varð frístundaheimilið Stjörnusteinar heimilislaust. Frístundaheimilið Stjörnusteinar hefur verið með sína starfsstöð á efri hæðinni í gamla skólanum undanfarin ár. Vegna myglunar þurfti að bregðast við hratt og örugglega svo hægt væri að tryggja áframhaldandi frístundaþjónustu við börn og foreldra á Eyrarbakka og Stokkseyri.
Frístundaheimilið fékk skjól í nýju skólabyggingu BES á Stokkseyri í skólastofum 1. og 2. bekks ásamt rými fram á kennslugangi. Umsjónarkennarar 1.- 2. bekkjar þurfa því að yfirgefa stofuna og þar með vinnurými og undirbúningsaðstöðu sína strax að kennslu lokinni. Þarf af leiðandi þurfa þeir kennarar að stunda sinn undirbúning á öðrum stað sem veldur óþægindum eins og gefur að skilja.
En starfsmenn frístundar verða einnig fyrir óþægindum, þeim er ekki búin nægilega góð aðstaða til bráðabirgða. Forstöðumaður Stjörnusteina hefur ekki vinnuaðstöðu í skólanum, fyrr en eftir að kennslu líkur, til þess að sinna undirbúning og vinnur því að heiman fyrir hádegi, eins og staðan er í dag. Starfsfólkið hefur hvergi rými til þess að funda og skipuleggja daginn í sameiningu í upphafi frístundar. Þetta er ekki boðlegt til lengri tíma. Starfsmenn Stjörnusteina eru og hafa verið einstaklega sveigjanleg, jákvæð og þakklát fyrir það sem þau hafa fengið. En það er ekki bara hægt að lifa og vinna í þakklætinu eintómu og sveigja sig og beygja endalaust. Ef maður sveigir hluti endalaust þá brotna þeir.
Starfsumhverfi barnana okkar
Líkt og þegar unglingarnir fóru yfir á Rauðahúsið og á félagsheimilið Stað vegna mygluvanda á Eyrarbakka þá tækluðu nemendur og starfsmenn það með sóma. En þegar hversdagsleikinn tók við þá varð ástandið fljótt þreytt. Það sama er að gerast með krakkana í frístund. Þau voru fyrst spennt fyrir breytingunum. Þetta var öðruvísi umhverfi en þau voru vön í frístund. En núna er nýjabrumið farið af og sjarminn horfinn.
Að vera í sama vinnuumhverfinu frá 8:15-16:30 er ekki spennandi til lengdar. Bara það að ganga þessi nokkur skref yfir skólalóðina og yfir í gamla skólann gerði svo mikið fyrir krakkana. Þegar þau áttu sitt eigið rými, sitt hjarta, Stjörnusteina.
Í reglum sem gilda um umgjörð frístundaheimila í Sveitarfélaginu Árborg segir:
,,Þar sem aðstaða fyrir frístundaheimili er ekki fullnægjandi innan grunnskóla skal sveitarfélagið útvega húsnæði í samræmi við skilgreiningu á rýmisþörfum frístundaheimila í byggingarreglugerð. Lagt er upp með að hvert frístundaheimili eigi sitt „hjarta“ eða heimastöð sem almennt er ekki er nýtt undir aðra starfsemi. Samnýting sé þó eðlilega á öðru húsnæði með skóla, íþróttahúsi og o.fl.”
Við erum ekki að sýna starfsmönnum og börnum í Stjörnusteinum virðingu með því að útvega þeim ekki sitt ,,hjarta”.
Skólahúsnæðið á Stokkseyri
Skólahúsnæðið á Stokkseyri var hannað og byggt fyrir 1.-4.bekk og átti að vera með fullbúnar verkgreinastofur. Þær hafa ekki allar skilað sér inn í bygginguna þar sem 5.-6.bekkur eru einnig að stunda nám í byggingunni. Smíðastofan er út í bæ, skammt frá skólanum á Stokkseyri, heimilisfræðistofan og tónmenntastofan fengu ekki sitt pláss í nýju byggingunni og voru úti í gamla skóla. Vegna myglu eru þessi kennsla í uppnámi. Skólahúsnæðið er sprungið og við verðum að finna lausnir við þessum vanda.
Við viljum halda í það góða fólk sem kennir og hlúir að börnunum okkar í skólanum sem og starfsmönnum Stjörnusteina sem hugsar um börnin okkar í frístund og sér til þess að við getum unnið fullan vinnudag áhyggjulaust. Við viljum að frístundarheimilinu sé búið gott starfsumhverfi sem laðar að sér hæft og gott starfsfólk. Frístund er ekki einhver afgangsstærð.
Nú er búið að tryggja Stjörnusteinum húsaskjól út skólaárið og vonandi lausn fyrir sumarfrístund. En hvað verður um Stjörnusteina í haust? Hvernig á að tryggja þeim góða aðstöðu fyrir starfsfólkið sitt og nemendur? Sitt ,,hjarta” og svæði sem þau geta gert að sínu. Geymt leikföng, spil, efnivið til sköpunar, hengt upp listaverkinn sín og fl.
Stöndum vörð um frístundarheimilin okkar
Samkvæmt nýlegrar skýrslu frá Barnahjálp sameinuðu þjóðanna, Unicef, þá eiga íslensk börn erfitt með að eignast vini og skora lægst Evrópuþjóða í félagsfærni barna. Það er svo mikilvægt að vera með starf fyrir börn sem eflir þessa færni. Því verðum við að gera betur og gefa frístund byr undir báða vængi. Þau vinna svo þarft starf sem á eftir að skila sér margfalt til baka.
Árborg hefur verið að byggja upp öflugt starf í frístundaheimilum sveitarfélagsins undanfarin ár og skora ég á þau að standa vörð um starfsemi Stjörnusteina og tryggja þeim öruggt húsnæði til frambúðar, húsnæði sem gerir starfsmönnum kleift að sinna sínum faglega starfi sem eflir félagsþroska og samskiptafærni barnana okkar. Frístundaheimilið Stjörnusteinar hefur glatað ,,hjarta” sínu, við verðum að gæta þess að þau fái það aftur og sem fyrst.
Charlotte Sigrid á Kósini,
fjögurra barna móður búsett á Eyrarbakka.