-7.3 C
Selfoss

Munaðarleysinginn – hver er framtíð Garðyrkjuskólans?

Gróðurhús, Landbúnaðarháskóli Íslands
Mynd: Landbúnaðarháskóli Íslands

Síðan 2019 hef eg verið dvalargestur á Heilsuhælinu í Hveragerði um 4ra vikna skeið hverju sinni. Að ganga um nágrennið, fylgjast með fuglalífinu og trjágróðrinum ásamt ýmsu öðru í umhverfinu, hitta kannski fólk og spjalla um daginn og veginn hefur mér ætíð þótt skemmtilegt.

Fyrstu daga dvalar minnar að þessu sinni voru göngustígarnir um skóginn handan Varmárinnar við Heilsuhælið og að Garðyrkjuskólanum á Reykjum nánast ófærir. Nokkrum dögum síðar gekk eg aftur þar um enda færðin skárri. Ósköp þótti mér eyðilegt að sjá rétt eins og Þyrnirósarsvefn væri runninn upp í Garðyrkjuskólanum. Hvergi var nokkurn að sjá þó um virkan dag væri að ræða. Þótti mér það afarleitt að sjá hvernig komið er fyrir gamla góða Garðyrkjuskólanum. Fyrir um áratug sótti eg námskeið fyrir áhugafólk um skógrækt, Grænni skógar sem haldið var sitt á hvað í Garðyrkjuskólanum og að Hvanneyri í Borgarfirði. Tel eg mig því eiga góðar minningar um skóla þennan sem virðist í dag vera eins og munaðarleysingi íslenska skólakerfisins.

Nú í vikunni sá eg hóp nemenda sem var í verklegri þjálfun við að stunda klippingar og snyrtingu á runnum sunnan við Garðyrkjuskólann. Skildist mér á þeim að þeir væru í tímabundinni sjálfboðaliðavinnu í þágu skólans undir tilsjón kennara.

Lengst af var Garðyrkjuskólinn sjálfstæður fagskóli uns hann var sameinaður Landbúnaðarskólanum á Hvanneyri og um tíma gerður að sérstakri starfs- og endurmenntunardeild. Árið 2019 var því fyrirkomulagi breytt og náminu skipt upp milli þriggja háskóladeilda en varð mjög umdeilt. Starfið í Garðyrkjuskólanum var því ekki hafið upp á háskólastig og því afgangsstærð.

Margir hugðu gott til glóðarinnar og báru þá von að nú væru breyttir tímar upprunnir. En fjárveitingavaldið hefur verið lengi þekkt fyrir að vanmeta fjárhagsáætlanir skóla enda kom það brátt í ljós. Háskólasamfélagið hefur verið meira og minna á horriminni sem aðrir skólar í samfélaginu og Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri og í Ölfusi fór ekki varhuga af því. Árið 2020 ákvað þáverandi menntamálaráðherra að breyta þessu og leggja skólann undir og sameina hann Fjölbrautarskóla Suðurlands á Selfossi. Það verður því að telja gagnlítið að flytja Garðyrkjuskólann í þriðja sveitarfélagið sem verður að teljast enn ein bráðabirgðalausnin. Það verður að leita raunhæfari leiða.

Svo virðist sem þolinmæði aðstandenda Garðyrkjuskólans sé þrotin um ástandið mála en sagt er að viðræður séu í gangi um samstarf við Fjölbrautaskóla Suðurlands á Suðurlandi. Vel kann að vera að það reynist skárra en þá er verið að blanda enn einu sveitarfélaginu inn í þessa þraut við að reka skólann. Eins og staðan er í dag má því líta á Garðyrkjuskólann sem munaðarleysingja innan íslenska menntakerfisins.

Garðyrkjuskólinn er með eldri framhaldsskólum landsins, stofnaður 1939. Þar hefur gegnum tíðina safnast fyrir mikil reynsla og þekking á margvíslegum sviðum garðyrkju. Um líkt leyti og skólinn hóf starfsemi sína varð til þéttbýli í Hveragerði. Hafa hvorutveggja, skólinn og sveitarfélagið átt allnáið samstarf saman. Þegar landakort er skoðað þá vill svo til að Hveragerðisbær er sem lítil eyja inni í miðju annars sveitarfélags, Ölfuss þar sem yfirstjórnin er í Þorlákshöfn. Einhverra hluta vegna virðist hafa gleymst að stækka lögsagnarumdæmi Hveragerðis eftir því sem sveitarfélaginu hefur vaxið fiskur um hrygg. Íbúum þess hefur fjölgað mikið og umsvifum sveitarfélagsins aukist að sama skapi. Tengsl Garðyrkjuskólans við Ölfuss eru væntanlega sáralítil. Varmáin deilir mörkum milli Ölfuss og Hveragerðis og hafa yfirvöld í Þorlákshöfn skipulagsvald á Reykjum þar sem Garðyrkjuskólinn er. Meira að segja sundlaugin í Laugaskarði, almenningssundlaug Hvergerðinga á undursamlega fögrum stað er í Ölfussi og þar með einnig á skipulagssvæði Ölfuss.

Sjálfsagt er að skoða betur mörk sveitarfélaganna sem myndi án efa styrkja tengsl Garðyrkjuskólann við Hveragerðisbæ þar sem náin tengsl ættu betur við en Ölfuss.

Fyrir nokkrum misserum fór fram atkvæðagreiðsla um sameiningu Hveragerðis við Ölfuss. Hveragerðingar eru flestir hlynntir slíkri tillögu en hún var kolfelld í Ölfusshreppi. Því verður að leita annarra leiða. Það verður að draga upp ný mörk milli sveitarfélaganna sjái Ölfusshreppur ekki að sér og endurskoði afstöðu sína til sameiningar. Núverandi mörk eru frá eldri tíð og eðlilegt er að endurskoða þessi mál með hagsmuni Hveragerðinga betur og þar með Garðyrkjuskólans í leiðinni.

Mörk Ölfusshrepps verða að teljast mjög óðeðlileg eins og þau eru núna enda ná þau langt norður af Hveragerði og alla leið norður í Grafning. Augljóst er að vegna virkjanaframkvæmda norðan Hveragerðis er Hveragerðisbær ekki aðili að samningum við aðila á sviði virkjana né annarra framkvæmda sem verður að teljast mjög óraunhæft. Ölfussbúum virðist standa á sama hvort niðurdæling og aðrar framkvæmdir á vegum Orkuveitunnar valdi Hveragerðingum einhverjum óþægindum og raski. Mörk Ölfusshrepps verða því að teljast því mjög óðeðlileg að ná langt norður fyrir Hveragerði.

Nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn stýrt báðum þessum sveitarfélögunum. Eðlilegt er að líta svo á að nú standi á flokki þessum að beita sér fyrir nauðsynlegum breytingum á mörkum sveitarfélaganna. Sé áhugi lítill eða jafnvel enginn er það hlutverk annarra stjórnmálaflokka að ríða á vaðið og eiga frumkvæði að breytingum um stjórnsýslumörkin. Eftir að Hveragerðisbær hefur fengið skipulagsvald handan norðan og austan Varmár, ætti að vera kominn góður grundvöllur um betri landnýtingu á þeim slóðum. Það er lykilatriði að unnt sé að breyta og bæta hag Garðyrkjuskólans. Og þá má ekki gleyma að fjárveitingavaldið verður að sýna skólanum betri skilning og veita nauðsynlegt nægt fé sem til þarf að rétta hag hans.

Garðyrkjuskólinn þarf að rísa úr öskustónni.

Munaðarleysinginn verður að fá tækifæri að braggast að nýju.

Guðjón Jensson
leiðsögumaður og tómstundablaðamaður

Nýjar fréttir