-0.5 C
Selfoss

Uppstrílaðar brúðkaupsbollur með spaghettí

Helga Guðrún Lárusdóttir er sunnlenski matgæðingur vikunnar.

Ég vil byrja á því að þakka honum Hlyni, tískufyrirmynd og góðvini mínum fyrir áskorunina!

Ég er mikill matarunnandi og eyði ófáum frístundum í eldhúsinu við að föndra eitthvað gott í matinn.

Uppskriftin sem ég ætla að deila með ykkur er þó ekkert allt of mikið föndur, heldur endurbætt útgáfa af bollum sem foreldrar mínir buðu uppá í brúðkaupinu sínu þann 6.júlí 1996, ég var nýorðin 7 ára en mundi eftir þessum bollum langt fram á fullorðinsár og hef í dag breytt þeim í spaghettíbollur sem við gæðum okkur reglulega á með góðri pastasósu og spaghettíi. 

Uppstrílaðar brúðkaupsbollur

  • 1 pakki nautahakk
  • 1-2 egg, byrjum á einu
  • 1/2 pakki af ritzkexi eða carrs cheese melts (bæði gott)
  • 1 msk oreganó
  • 2-4 hvítlauksgeirar, pressaðir eða saxaðir smátt (ef ég er mjög löt hef ég gripið í hvítlauksduft í staðin)
  • 1 dl hakkaðar döðlur (það hljómar skrýtið, en bragðast undursamlega!)
  • Salt og pipar 

Spaghettí

Tómat-pastasósa (ég er hrifin af öllum pastasósunum frá Gestus sem fást í Krónunni.)

Öllu nema spaghettíinu og pastasósunni dembi ég í skál, hnoða saman með höndunum og bæti við eggi ef mér finnst þetta ekki loða nógu vel saman. 

Ég bý svo til litlar bollur, dóttir mín vill hafa allt pínulítið og ég læt það eftir henni í þessu tilfelli.

Á meðan ég hnoða bollurnar, læt ég saltað vatn ná upp suðu í stórum potti.

Þegar suðan er komin upp og bollurnar tilbúnar, set ég spaghettíið í vatnið og elda skv leiðbeiningum, hita smá olíu á pönnu við miðlungs-háan hita og brúna bollurnar vel, helli svo sósunni yfir og lækka undir (ég þarf yfirleitt að bæta um 1 dl af vatni við svo sósan verði ekki of þykk) og læt bollurnar malla á meðan spaghettíið sýður. 

Þegar spaghettíið er tilbúið ættu bollurnar að vera það líka, þú getur prófað að skera eina í sundur ef þú ert ekki viss og gá hvort hún sé brún í gegn.

Ég ætla ekki að gerast svo fræg að mæla með víni með þessum rétt eins og hann Hlynur minn gerði því ég fæ mér yfirleitt bara strangheiðarlegt glas af Pepsi Max með þessum rétti, honum eflaust til mikillar ánægju.


Ég vil að lokum skora á hana Sigrúnu Völu vinkonu mína, sem er ekki bara falleg, klár og syngur eins og engill, heldur er hún algjör snillingur í eldhúsinu!

Fleiri myndbönd