3.9 C
Selfoss

Íþróttir- og æskulýðsmál í Rangárþingi eystra

Bjarki Oddsson.
Bjarki Oddsson.

Við í Rangárþingi eystra erum heppin með okkar íþróttafélög og félagasamtök sem bjóða upp á mikið af ólíkum greinum og öðrum tómstundum þannig að öll ungmenni ættu að hafa möguleika við sitt hæfi. Við búum vel að hafa stór félög sem hafa á sínum snærum fjölhæfa og færa þjálfara og umsjónarmenn. Við búum einnig við þau gæði að eiga nýja félagsmiðstöð sem byggð var utan um starfsemina ásamt því að hafa tónlistarskóla með framúrskarandi kennurum, glæsileg reiðhöll sem áhuga- og atvinnumenn nýta sér .

Starfinu er svo púslað saman fyrir ungmenni á grunnskólaaldri með tilliti til skólaaksturs og er með því verið að stuðla að  jöfnu aðgengi allra grunnskólabarna í sveitarfélaginu að íþróttum og tómstundum við hæfi. En staða sveitarfélagsins er þó ekki fullkomin, síbreytilegar kröfur og framþróun fela í sér að alltaf eru möguleikar til framfara. Sveitarfélagið hefur staðið fast við bakið á félagasamtökum með þjónustusamningum til að tryggja að fjölbreytt íþrótta- og tómstundastarf þrífist með sem bestum hætti í sveitarfélaginu auk þess að byggja upp fyrirmyndaraðstöðu. Síðustu misseri hefur fjölbreytileiki íþróttagreina aukist til muna með tilkomu rafíþróttadeildar Dímonar og æfinga ungliðastarfs Skotíþróttafélagsins Skyttna.

Sveitarfélagið þarf að tryggja áframhaldandi uppbyggingu með góðum stuðningi við félögin í formi þjónustusamninga en einnig þarf að vera til staðar fyrirmyndaraðstaða til þess að mögulegt sé að stunda þær greinar sem grundvöllur er að hefja æfingar á. Í þessu samhengi er fyrirséð að bygging nýs gervigrasvallar á Hvolsvelli er framkvæmd sem ráðast verður í á næstu misserum. Með því að byggja upp fyrirmyndaraðstöðu fyrir knattspyrnuiðkendur öðlast aðrar greinar aukið pláss í íþróttamannvirkjum sem nú falla knattspyrnunni í skaut.

Mig langar að benda öllum íþróttaiðkenndum og forráðamönnum þeirra á íþrótta- og afrekssjóð Rangárþings eystra. Sjóðurinn var stofnaður árið 2018 og var viðleitni sveitarfélagsins til þess að koma til móts við þá iðkendur sem skara fram úr í sínum greinum og þurfa vegna smæðar sveitarfélagsins að sækja æfingar og keppni út fyrir sveitarfélagið.

Fjölmargar rannsóknir sýna fram á að Íþrótta og tómstundastarf er ein mikilvægasta forvörnin gegn áhættuhegðun barna og unglinga. Það er því mikilvægt að sveitarfélögin búi þannig um hnútana í sínu nærsamfélagi að allir einstaklingar hafi svigrúm til þess að stunda íþróttir og tómstundir við sitt hæfi. Ekki er heillavænlegt að horfa um of á uppbyggingu einnar ákveðinnar tómstundaiðju á kostnað þeirrar næstu.

Horfum til framtíðar, nýtt metnaðarfullt deiliskipulag íþrótta- og skólasvæðis býður upp á möguleika til þess að byggja áfram upp frábært íþrótta- og tómstundastarf sem þjónar þeim kröfum sem gerðar eru til þess og hefur mikið forvarnagildi. Tryggjum áframhaldandi uppbyggingu í málaflokknum sem nýtist öllum íbúum.

Bjarki Oddsson,
frambjóðandi B- lista framsóknarmanna og annara framfarasinna
í Rangárþingi eystra.

 

Nýjar fréttir