1.7 C
Selfoss

Frelsi og val

Guðmundur Ármann

Sjálfstæðisflokkurinn í Árborg verður með prófkjör n.k. laugardag þann 19. mars. Það eru 18 frambærilegir einstaklingar sem boðið hafa fram krafta sína í prófkjörinu. Sjálfstæðismenn vilja að íbúar hafi val.

Að hafa val er mikilvægt. Að hafa fjölbreytta valkost er mikilvægt hverju samfélagi. Með því að nýta einkaframtakið fjölgum við valkostum. Með einkaframtakinu stuðlum við að nýsköpun, opnum á ný tækifæri, fáum fyrirsjáanleika í útgjöldum og fjölgum valmöguleikum íbúa.

Höfum valfrelsi og fjölbreytta möguleika að leiðarljósi. Leggjum áherslu á að eldri íbúar hafi val um ólíka þjónustu og val um mismunandi þjónustuaðila. Leggjum áherslu á að fatlað fólk hafi val er kemur að stuðning og búsetuformi. Leggjum áherslu á að ungt fólk hafi fjölbreytt val, skóli, félagsstarf, íþróttir og aðrar tómstundir. Það er bæjarstjórnar að leggja því lið að valkostir séu ávallt í boði og að íbúar hafi val.

Í rekstri sveitarfélagsins eiga að vera valkostir og sveigjanleiki. Útfæra á starf án staðsetningar sem valkost. Leggjum áherslu á að fjárfesta meira í fólki og minna í steypu. Leggjum meiri áherslu á verkefni og minni áherslu á að safna stöðugildum. Verum óhrædd við að útvista verkefnum, þannig fáum við oft betra verð, markvissari vinnu og skýrari niðurstöðu.

Nýtum einkaframtakið þegar kemur að leik- og grunnskólum. Þannig aukum við val íbúa og fáum aukinn krafti skólaumhverfið. Nýtum einkaframtakið í þjónustu við fatlað fólk og í þjónustu við eldri íbúa sveitarfélagsins.

Með því að sveitarfélagið nýti einkaframtakið og útvisti verkefnum er verið að efla atvinnulíf í sveitarfélaginu á jákvæðan og uppbyggilegan hátt báðum aðilum til góðs.

Með því að setja rafræna stjórnsýslu í öndvegi, getum við minnkað það bákn sem stjórnsýslan er orðin. Drögum þannig úr kostnaði, aukum skilvirkni og bætum þjónustu.

Höfum skýra sýn, höfum fyrirsjáanleika, leggjum áherslu á frelsi og valkosti því verkefnin fram undan í Árborg, eru í senn spennandi, flókin og mikilvæg.

Næstkomandi laugardag þann 19. mars hefur þú val. Val á milli 18 mjög frambærilegra frambjóðanda í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Árborg. Frambjóðenda með ólíka reynslu, menntun og bakgrunn.

Taktu þátt, þitt val skiptir máli.

Guðmundur Ármann

Sækist eftir 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Árborg

Nýjar fréttir