-8.9 C
Selfoss

Ég óska eftir þínum stuðningi

Bragi Bjarna í 1.sæti

Laugardaginn 19. mars gefst íbúum í Árborg tækifæri til að taka þátt í prófkjöri X-D og velja einstaklinga sem skipa efstu sæti listans fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í vor. Þetta er tækifærið til að velja einstaklinga sem þú, kæri íbúi, treystir til að koma að stjórn Sveitarfélagsins Árborgar næstu árin.

Ég heiti Bragi Bjarnason og býð mig fram í 1.sæti og leiða þann öfluga og samstillta hóp sem verður valinn í prófkjörinu til góðra verka fyrir samfélagið. Ég er giftur, þriggja barna faðir, með stjórnenda og viðskiptafræðimenntun (MBA) frá Háskóla Íslands og hef starfað sem stjórnandi hjá Sveitarfélaginu Árborg undanfarin 14 ár, nú sem deildarstjóri frístunda- og menningardeildar, ásamt því að koma að nefndarstörfum og sjálfboðaliðastarfi í samfélaginu. Á þessum tíma hef ég unnið að fjölbreyttum málaflokkum sem tengjast málefnum fjölskyldunnar og atvinnulífinu í Árborg og vil ég nýta þá miklu þekkingu sem ég hef, til áframhaldandi vinnu fyrir samfélagið á breiðari vettvangi.

Ábyrg fjármálastjórn – lægri álögur

Hlutverk sveitarfélaga snýst um að þjónusta íbúa og gesti og skapa umhverfi til öflugs atvinnulífs. Þjónustan er fjölbreytt líkt og rekstur leik- og grunnskóla, íþrótta- og frístundastarf, skipulagsmál, málefni eldri borgara, hita- og fráveita, snjómokstur, sorphirða svo fáein dæmi séu nefnd. Öll þessi þjónusta tekur til sín fjármagn og því skiptir máli að sveitarfélagið sé með ábyrga fjármálastjórn og finni hagkvæmar lausnir til að reksturinn sé réttu megin við strikið.

Því miður stendur sveitarfélagið ekki þar í dag en með skýrri framtíðarsýn og góðri samvinnu kjörinna fulltrúa og starfsmanna er ég sannfærður um að við getum snúið rekstrinum  við á réttan kjöl og sýnt trúverðuleika til framtíðar. Það er ekki sanngjarnt fyrir íbúa að hér í Árborg séu hæstu fasteignagjöldin en með ábyrgri fjármálastjórn eru allar forsendur til að lækka þær álögur á íbúa og fyrirtæki.

Nýtum tækifærin og eflum atvinnulífið

Um leið eru tækifæri til að afla aukinna tekna með því að efla nýsköpun, klára uppbygginu atvinnulóða og nýta heimildir til afslátta af gatnagerðagjöldum til að koma mikilvægum framkvæmdum af stað á miðbæjarsvæði Selfoss og við Eyrarbakka og Stokkseyri. Þær framkvæmdir skapa ný störf og fleiri tækifæri til atvinnu í allri Árborg sem auka tekjur sveitarfélagsins margfalt til framtíðar. Hugsum í lausnum, leggjum fram skýra framtíðarsýn og látum verkin tala.

Ég sækist eftir oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins Í Árborg, þar sem ég tel að kraftar mínir nýtist til að leiða samstilltan hóp fólks til góðra verka fyrir samfélagið. Öflugt lið þar sem allir hafa rödd og stuðning til að ljúka verkefnum og ná settum markmiðum. Þar tel ég að reynsla mín nýtist samfélaginu okkar vel.

Hvet alla til að láta sig málin varða og taka þátt í prófkjörinu laugardaginn 19.mars.

Bragi Bjarnason,
Frambjóðandi í 1.sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Sveitarfélaginu Árborg

Fyrri grein
Næsta grein

Nýjar fréttir