3.9 C
Selfoss

Kæru vinir og íbúar í Árborg

Anna Linda Sigurðardóttir.
Anna Linda Sigurðardóttir.

Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í 5.-6. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Árborg sem fram fer þann 19. mars næstkomandi. Ég tel það samfélaginu til heilla að listinn sé skipaður fólki á öllum aldri, fólki með mismunandi bakgrunn, þekkingu og reynslu. Þannig tel ég að við, í gegnum ólík sjónarmið og reynsluheim getum best þjónað fólkinu í samfélaginu.

Ég fæddist í Vestmanneyjum 10. ágúst 1960. Ég bjó í Eyjum fram til ársins 1983 að undanskildum námsárum. Ég lauk stúdentsprófi frá máladeild Verslunarskóla Íslands 1980 og B.ed frá Kennaraháskóla Íslands 1986. Þá lauk ég viðbótardiplóma frá Háskóla Íslands í uppeldis- og menntunarfræðum vorið 2016 með áherslu á sérkennslufræði og skóla margbreytileikans.

Ég er gift Magnúsi Hermannssyni kerfisstjóra hjá Sveitarfélaginu Árborg og eigum við 5 börn og 10 barnabörn á öllum aldri.

Ég hef starfað við grunnskóla í Árborg frá hausti 1994. Í dag gegni ég stöðu deildarstjóra Fjölmenningardeildar Vallaskóla en var áður verkefnastjóri, sérkennari og umsjónarkennari í flestum árgöngum. Þá kenndi ég, í 16 ár, íslensku sem annað tungumál fyrir fullorðna hjá Fræðsluneti Suðurlands auk kennslu fyrir fólk með fötlun. Reynsla mín af vinnu með ólíku fólki á öllum aldri er því mikil og góð.

Ástæða þess að ég býð mig fram er að ég hef brennandi áhuga á velferð barna og ungmenna. Það er mikilvægt að fjölskyldan sé í forgrunni því hún er jú hornsteinn samfélagsins. Það er gott að ala upp börn í Árborg og við þurfum að kappkosta að gera vel við barnafólk, að fjölskyldur hugsi, hér er gott að búa. Ég myndi vilja að öll börn hefðu jafnan aðgang að skólamáltíðum og því ekki rukkað fyrir þær sérstaklega. Auðvitað kostar það en með ábyrgri ráðstöfun tekjustofna og skynsemi væri það framkvæmanlegt.

Vissulega þarf að fara í aðgerðir til að rétta úr fjárhagsvanda sveitarfélagsins en ég vil að það sé gert á skynsaman hátt. Með ígrundun og réttri forgangsröðun. Það er að mörgu að hyggja í Árborg og skýr framtíðarsýn nauðsynleg. Þar ber að nefna fráveitumálin, heita vatnið, uppbyggingu á Eyrarbakka og Stokkseyri þ.m.t. nýjan grunnskóla og málefni eldri borgara. Það þarf að skapa fleiri atvinnutækifæri, huga að litlum sprotafyrirtækjum, efla nýsköpun og nýta þau tækifæri sem eru í okkar frábæra samfélagi. Það þarf að styrkja innviði, nýta þau amboð sem eru til staðar og kappkosta að sjá tækifærin sem leynast allt í kringum okkur bæði í mannauð og fyrirtækjum. Gaman væri að sjá hugmyndir um frumkvöðlasetur þar sem skapandi vinna fyndi farveg. Árborg er vaxandi bæjarfélag og margt spennandi framundan. Með því að halda vel á spilum, sýna ráðdeild og skynsemi getum við byggt upp enn betra samfélag, Árborg okkar allra þar sem allir fá jöfn tækifæri til menntunar og þroska.

Ég býð fram krafta mína til að gera Árborg að enn betra samfélagi okkur öllum til heilla.

Ég óska eftir ykkar stuðningi í 5. til 6. sæti í komandi prófkjöri

Góð kveðja,
Anna Linda Sigurðardóttir

Nýjar fréttir