Í sveitarstjórnarkosningum í vor verður tekist á um leiðir til að reka bæjarsjóð þannig að hann verði sem best í stakk búinn til að mæta þeirri gríðar miklu íbúafjölgun sem er í bæjarfélaginu og allt bendir til að framhald verði á. Íbúar hafa áhrif í kosningum á hverjir veljast til að bera ábyrgð á sveitarsjóði. Á liðnu kjörtímabili hafa skuldir því miður safnast upp sem gert hafa reksturinn ósjálfbæran, þ.e. að tekjur duga ekki lengur fyrir rekstri og afborgunum af skuldum. Við þessu verður að bregðast með því að gera áætlun um niðurgreiðslu skulda og að forgangsraða í þágu grunnþjónustu. Skuldir nútímans eru framtíðar skattar og álögur á íbúa og þær álögur lækka ekki við óbreytta stjórnarhætti í Árborg. Forsenda að hallalausum rekstri sveitarfélagsins er að fjármunum sé varið af ábyrgð, hagsýni og ráðdeild.
Forgangsröðun framkvæmda
Á næstu misserum þarf að forgangsraða framkvæmdum þannig að grunnþjónusta gangi fyrir öðrum verkefnum. Ýmis félagsleg þjónusta, fræðslumál, hreinlætismál, vatnsöflun, orka og nettengingar, eru grunnþarfir sem sveitarfélaginu ber skylda til að hlúa að. Samfara mikilli íbúafjölgun þarf að gæta að bæði félagslegri þjónustu og fræðslumálum, bæði leik- og grunnskólastarfi og er mikilvægt að öllum skólastigum verði búin góð aðstaða. Farið er að bera á skorti á heitu vatni til húshitunar en við því þarf að bregðast með virkjun nýrra borhola. Huga þarf að umhverfinu og að hafa bæjarfélagið snyrtilegt, sinna viðhaldi gatna og gangstétta og hirða gróður svo sómi sé að.
Nýsköpun
Nýsköpun er undirstaða framfara og aukinnar verðmætasköpunar í samkeppnisdrifnum heimi. Sjá má fyrir sér að atvinnumálanefnd fái það hlutverk að gera tillögur um aðgerðir til að efla frumkvöðlastarf og nýsköpun í bæjarfélaginu. Til að aukin atvinnutækifæri og nýsköpun spretti fram í Árborg þarf að tryggja hagfellt umhverfi til að stunda nýsköpun. Slíkt umhverfi laðar fyrirtæki að okkar sveitarfélagi og er þá ekki síst mikilvægt að allir innviðir og grunnþjónusta sé í lagi. Starfsfólk sem nýtur góðrar grunnþjónustu og er ánægt með búsetu sína er einnig lykillinn að því að fyrirtæki fái þrifist.
Þessi ofangreindu mál og svo mörg fleiri eru ástæðan fyrir að ég býð mig fram til setu í bæjarstjórn og að koma að ákvarðanatöku um framtíðaruppbyggingu sveitarfélagsins. Ég hvet þig lesandi góður til að taka þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Árborg því framtíðin er í þínum höndum.
Magnús Gíslason
Frambjóðandi í 3. – 4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Sveitarfélaginu Árborg.