Föstudaginn 11. mars síðastliðinn var haldið ball fyrir 8.-10. bekkinga á Suðurlandi. Þar komu saman rúmlega 500 sunnlenskir unglingar. Ballið fór fram í Hvíta húsinu á Selfossi þar sem Stuðlabandið hélt uppi stuðinu ásamt sérstökum gesti, Séra Bjössa. Það var ljóst að öll voru þau tilbúin í að hafa gaman saman og gekk ballið vonum framar. Unglingarnir sýndu fyrirmyndarhegðun og fá þau stórt hrós.
Við getum flest verið sammála um að nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að halda vel utan um börnin og unglinganna okkar. Fullorðna fólkið og fyrirmyndirnar þurfa að vera til staðar, hlusta, fylgjast með líðan, stuðla að samveru og hvetja til virkni.
Samvera með fjölskyldunni og skipulagt frístundastarf, í hvaða mynd sem það birtist, eru lyklar að forvörnum sem skila árangri til lengri tíma.
Nú þegar samkomubanni er lokið hefur opnast fyrir helling af möguleikum að skemmtilegri samveru. Við starfsfólk í félagsmiðstöðinni Zelsíuz hlökkum mikið til komandi viðburða og vonumst til að sjá sem flesta hjá okkur á næstunni.
Ef einhver þekkir ekki félagsmiðstöðina, þorir ekki eða veit ekki alveg hvernig á að stíga fyrstu skrefin inn í félagsmiðstöðvarstarfið, ekki hika við að hafa samband og við leiðbeinum.
Fyrir hönd starfsfólks Zelsíuz,
Dagbjört Harðardóttir,
forstöðumaður frístundahúsa Árborgar.