-4.8 C
Selfoss

Orku-, matvæla- og fæðuöryggi

Ásmundur Friðriksson.
Ásmundur Friðriksson.

Íslendingar hafa ekki farið varhluta af þeim áhrifum sem Covid-19 faraldurinn hafði  á þjóðina og efnahagslegar afleiðingar sem honum fylgdu. Það var því vonarneisti í augum okkar þegar allar takmarkanir í samskiptum höfðu verið afnumdar og lífið að færast í eðlilegt horf. Við vorum bjartsýn að ráðast á innflutta verðbólgu sem vaðið hafði upp úr öllu valdi og skaðað afkomu heimila og þjóðfélagsins alls.

Ekki súpa sama kálið

Á sama tíma hefur jarðefnaeldsneyti, orkuverð og hverskonar hrávara og flutningskostnaður hækkað um allan heim. Nágrannalönd okkar berjast við háan orkukostnað sem sligar atvinnulífið og heimilin í Evrópulöndum. Sameiginlegur orkumarkaður Evrópusambandsins nær ekki til markaðarins á Íslandi. Gæfa okkar er að Ísland er ekki tengt með sæstreng við orkumarkað Evrópu. Annars værum við að súpa sama kálið úr ausunni og önnur lönd álfunnar gera um þessar mundir. Við Íslendingar búum við stöðugt orkuverð og vonandi ber okkur gæfa til þess að svo verði áfram og endurnýjanleg orka nýtt til atvinnu- og verðmætasköpunar innanlands. Auðvelt er að taka þessari einstöku stöðu Íslands sem sjálfsögðum hlut og veita því litla athygli hve rík við erum af náttúrulegum auðlindum. Í því ljósi sem heimsmálin birtast okkur í dag eru orku- og auðlindir þjóðarinnar undirstaða sjálfstæði okkar.

Hver er sjálfum sér næstur

En blíðan eftir Covid -19 var skammvinn. Það skall á stríð. Afleiðingar Covid-19 og stríðsins í Úkraínu á efnahagslíf heimsins er hörð áminning um okkar stöðu. Mikilvægi íslensks landbúnaðar er augljóst, nú sem aldrei fyrr í ljósi stöðu heimsmálanna í dag. Fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar mun fyrst og fremst byggja á getu landbúnaðar, garðyrkju og sjávarútvegs að tryggja þá stöðu. Við sáum það í Covid-19 faraldrinum að við getum ekki stólað á aðrar þjóðir með allar okkar nauðsynjar. Hver er sjálfum sér næstur þegar á reynir og það á líka við um Ísland.

Tryggjum eigið öryggi 

Fyrirséð er að stríðið í Úkraínu mun hafa gríðarleg áhrif á orkukostnað um allan heim. Hröðun orkuskipta hefur því aldrei verið mikilvægari en nú. Í ljósi aðstæðna á heimsmarkaði er það algjört forgangsatriði að setja orkuskiptin í forgang og sjálfbærni Íslands fyrirrúm. Virkjanakostir eru tilbúnir í Þjórsá, Hvammsvirkjun bíður framkvæmdaleyfis og Holtavirkjun er í nýtingaflokki rammaáætlunar. Það er mikilvægt að hraða þessum virkjanakostum ef  við meinum eitthvað með orkuskiptum í landinu. Við höfum ekki áður staðið frammi fyrir þeim augljósu kostum að nýta auðlindir okkar. Til að tryggja eigin öryggi og skapa störf og framleiða verðmæti sem undirstöðu velferðar í landinu.

Það er stríð í Evrópu

Um leið og við stöndum með bandamönnum okkar, styrkjum viðskipti víða um heim er aldrei mikilvægara að standa vörð um innlenda matvæla- og orkuframleiðslu. Það er stríð í Evrópu, sem mögulega getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir landbúnaðarframleiðslu í álfunni. Sérstaða Íslands hefur  aldrei verið augljósari. Það er dýrt fyrir fámenna þjóð að byggja stóra eyju. En það verður þjóðinni dýrkeyptara að standa ekki vörð um landbúnað í landinu, afkomu bænda og fólksins í sveitinni. Það er aldrei mikilvægara en nú að við stöndum vörð um orku-,
matvæla- og fæðuöryggi og yfirráð yfir endurnýjanlegum auðlindum okkar. 

Það leiðir ávallt af sér sjálfstæði. 

Ásmundur Friðriksson,
alþingismaður.

Nýjar fréttir