Undirritaður er byggingarfræðingur B.Sc. og húsasmíðameistari og hefur langa reynslu af mannvirkjagerð, hönnun þeirra og stjórn framkvæmda, stórra og smárra. Mér er annt um íþróttastarf í Hveragerði og hef í gegnum tíðina reynt að styðja við það eins eins og ég mögulega get.
Í febrúarmánuði urðu Hvergerðingar fyrir miklu tjóni þegar Hamarshöllin, loftborið íþróttahús, fauk í einu af óveðrinu sem gekk yfir landið. Við það hvarf aðstaða til íþróttaiðkunar að stórum hluta í einum vettvangi, þá sérstaklega til fótboltaiðkunar og fimleika. Í grein þessari verður farið yfir farinn veg hvað varðar hið loftborna mannvirki, síðan það var byggt og til dagsins í dag og velt upp hvernig skal styðjast við þá þekkingu til að finna hvaða leiðir eru bestar til að byggja um nýja Hamarshöll.
Hamarshöllin – loftborið íþróttahús
Hamarshöllin var loftborið mannvirki, sem þýðir að því er haldið uppi með loftþrýsting. Húsið var tekið í notkun á haustmánuðum árið 2012.
Kostnaður skv. blaðagreinum og viðtölum
Tölur um kostnað hefur verið nokkuð á reiki og það sem ég hef fundið eru tölur allt frá 230 m.kr til 338 m.kr. Athuga skal að í opinberri umræðu hefur kostnaður oft verið gefinn upp án virðisaukaskatts, sem er í lagi ef tekið er fram að það sé kostnaður auk virðisaukaskatts en Hveragerðisbær greiðir hann til ríkisins 20 árum. Því þykir mér rétt að tala um kostnað með virðisaukaskatti því það er raunkostnaður.
Raunkostnaður
Stofnkostnaður Hamarshallarinnar var 415 m.kr. m/vsk skv. upplýsingum sem fengust frá skrifstofustjóra Hveragerðisbæjar. Vegna vandræða með vélbúnað hefur þurft að ráðast í reisa hús yfir vélbúnað sem fylgdi Hamarshöllinni. Kostnaðurinn við það hús er um 64 m.kr. en ég tel rétt að taka þann kostnað með þar sem að nauðsynlegt var að byggja þetta aukahús undir vélbúnaðinn sem knýr loftþrýstinginn í húsinu.
Samtals stofnkostnaður Hamarshallarinnar: 479 m.kr.
Rekstrarkostnaður
Það gefur augaleið að það þarf mikla orku í halda loftbornu húsi uppi og tel ég því að bera skuli saman rekstrartölur á loftbornu húsi og síðan íþróttahúsi með steyptum veggjum og stálgrindarþaki, t.d. eins og Hópið í Grindavík (nefnum það hús B í útreikningi). Bæði húsin eru upphituð. Í töflu 1 eru upplýsingar um grunntölu á rafmagni og hita miðað við 2018 og fram/aftur reiknuð skv. vísitölu neysluverðs. Miðað er við um 5000 fm í báðum tilfellum.
Ár | Hamarshöllin (kr.) | Hús B (kr.) |
2013 | 6.400.000 | 2.900.000 |
2014 | 6.600.000 | 3.000.000 |
2015 | 6.700.000 | 3.020.000 |
2016 | 6.800.000 | 3.100.000 |
2017 | 6.900.000 | 3.150.000 |
2018 | 7.100.000 | 3.220.000 |
2019 | 7.300.000 | 3.320.000 |
2020 | 7.500.000 | 3.400.000 |
2021 | 7.800.000 | 3.520.000 |
Samtals | 63.100.000 | 28.630.000 |
Tafla 1: Kostnaður við hita og rafmagn
Eins og glögglega má sjá þá er rekstrarkostnaður vegna hita og rafmagns umtalsvert hærri á Hamarshöllinni heldur en húsi B. Samantekinn kostnaður yfir árin 2013 – 2021 (9 ár) er kr. 34.470.000.- meiri fyrir Hamarshöllina heldur en hús B.
Samkvæmt tölum úr viðtali á netinu við bæjarstjóra Hveragerðisbæjar var tryggingarkostnaður við Hamarshöllina árið 2018 1.9 m.kr. á ári. Í töflu 2 er grunntala á tryggingum miðað við 2018 og fram/aftur reiknuð skv. vísitölu neysluverðs. Miðað er við um 5.000fm hús í báðum tilfellum. Tölur fyrir tryggingar Hamarshallarinnar árin 2019 – 2021 eru leiðréttar miðað við upplýsingar úr fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar sem eru aðgengilegar á vef bæjarfélagsins
Ár | Hamarshöllin (kr.) | Hús B (kr.) |
2013 | 1.720.000 | 565.000 |
2014 | 1.770.000 | 580.000 |
2015 | 1.780.000 | 590.000 |
2016 | 1.820.000 | 600.000 |
2017 | 1.860.000 | 610.000 |
2018 | 1.900.000 | 625.000 |
2019 | 1.500.000 | 650.000 |
2020 | 1.000.000 | 660.000 |
2021 | 1.000.000 | 690.000 |
Samtals | 14.350.000 | 5.570.000 |
Tafla 2: Kostnaður við tryggingar
Hér að ofan sést að tryggingarkostnaður við Hamarshöllina er umtalsvert hærri en á húsi B. Samantekinn kostnaður yfir árin 2013 – 2021 (9 ár) er kr. 8.780.000.- meiri fyrir Hamarshöllina heldur en hús B
Samanburðarhús
Ég komst yfir upplýsingar um kostnað á fjölnotaíþróttahúsi í Grindavík, en það hús er einangrað með staðsteyptum veggjum og stálgrindarþaki. Inn í húsinu er knattspyrnuvöllur og 60m löng hlaupabraut. Húsið var byggt árið 2009 og var stofnkostnaður þess 281 m.kr. m/vsk. Hús þetta er 3653fm og er því fermetra verðið samtals 76.923.- m/vsk. Ég framreikna þennan kostnað til ársins 2012 miðað við vísitölu og er því áætlað fermetra verð árið 2012 89.838.- m/vsk. Miðað við 5.000fm hús (hús B) á þessu fermetra verði hefði það hús kostað 450 m.kr. Í töflu 3 má sjá samanburð á Hamarshöllinni og húsi B miðað við framangreindar forsendur, þ.e. stofnkostnað og rekstrarkostnað við hita og rafmagn annars vegar og tryggingar hins vegar yfir níu ára tímabil í jafnstórum húsum (5.000 fm)
Kostnaðarliðir | Hamarshöllin (kr.) | Hús B (kr.) |
Stofnkostnaður | 415.000.000 | 450.000.000 |
Aukahús | 64.000.000 | 0 |
Hiti og rafmagn | 63.100.000 | 28.630.000 |
Tryggingar | 14.350.000 | 5.570.000 |
Samtals | 556.450.000 | 484.200.000 |
Tafla 3: Samanburður á Hamarshöllinni og húsi B yfir 9 ára tímabil
Niðurstaða
Að mínu mati er augljóst að ekki hefur verið farið í almennilega vinnu á sínum tíma við að athuga kostnað við áætlanagerð á fjölnota íþróttahúsi. Ekki var hugsað nógu langt til framtíðar m.t.t. rekstrarkostnaðar. Þar fyrir utan er það tjón sem við Hvergerðingar lentum í núna í febrúar virkilega kostnaðarsamt og skelfilegt fyrir íþróttastarfið hérna í Hveragerði. Erfitt að meta það í krónum og aurum.
Tíminn er eitt það verðmætasta sem við eigum og sá tími sem fer núna í að byggja upp nýtt fjölnota íþróttahús hér í Hveragerði hefði verið hægt að nota í annað ef að bæjaryfirvöld á sínum tíma hefðu vandað sig við áætlanagerð og verið með forsjálni að leiðarljósi. Það var talað um það á sínum tíma að dúkurinn sem fauk myndi endast í a.m.k. 20 ár.
Eins benti bæjarstjóri, á bloggi sínu, þann 8. september 2009 á að knattspyrnufélagið Rosenborg í Þrándheimi væri nýbúið að reisa 10.000 fm loftborna höll frá Duol fyrir klúbbinn eftir að önnur loftborin höll hafði hrunið. Í umræddri færslu benti bæjarstjóri á að knattspyrnufélagið hafi fjárfest í húsi eins og bæjaryfirvöld væru að skoða. Tæpum þremur árum síðar, í lok árs 2011, lenti Rosenborg knattspyrnufélagið aftur í því að loftborna höllin þeirra hrundi. Þarna hefðu einhver viðvörunarljós átt að blikka. Þess ber að geta að knattspyrnufélagið Rosenborg ákvað árið 2012 að nú skildi byggja hús sem þolir veður og vinda. Það hús var tekið í notkun árið 2013 og stendur enn. (heimild Mjúkhýsi í Hveragerði (mjukhysi.blogspot.com) (heimild Abrahallen – Wikipedia) (heimild Abrahallen har kollapset – adressa.no)
Að mínu mati á að læra af mistökum sem gerð hafa verið. Eflaust heyrast þær raddir að ekki eiga að velta sér upp úr fortíðinni en nauðsynlegt er að byggja á þeirri reynslu sem við höfum og líta yfir farinn veg. Að rýna til framtíðar byggist á þekkingu. Þekking byggir á fortíðinni og allar ákvarðanir sem við tökum í dag snúast um framtíðina. Notum þekkinguna og tökum ákvarðanir um uppbyggingu fjölnota íþróttahúss á fyrirliggjandi gögnum og reynslu.
Arnar Ingi Ingólfsson,
byggingarfræðingur í Hveragerði