Fullt var út úr dyrum á stofnfundi Ferðafélags Rangæinga á Hellu 1. mars sl. en einnig var stór hópur sem tók þátt í fundinum í gegnum fjarfundabúnað. Undirbúningshópur að stofnun félagsins hefur verið starfandi undarfarnar vikur og var tillaga undirbúningshópsins um að stofna Ferðafélag Rangæinga samþykkt einróma á fundinum og með dúndrandi lófataki að auki. Samþykkt voru lög fyrir félagið en starfssvæði þess eru héraðsmörk Rangárvallasýslu og nágrennis. Ferðafélag Rangæinga er áhugamannafélag með þann tilgang að hvetja fólk á öllum aldri til útivistar í hinu fagra Rangárþingi. Stefnt er að því m.a. að skipuleggja langar og stuttar, léttar og erfiðari göngur, hjólaferðir og hvers konar útivistarferðir við hæfi sem flestra. Fram kom á fundinum að þrátt fyrir að starfssvæði félagsins sé Rangárvallasýsla þá eru allir velkomnir í félagið óháð búsetu. Félagið verður deild í Ferðafélagi Íslands og hefur undirbúningur að stofnun þess verið unninn í góðu samstarfi við forystufólk FÍ. Á fundinum voru Anna Guðrún Jónsdóttir, Björn Ingi Jónsson, Helgi Jóhannesson, Ingibjörg Þóra Heiðarsdóttir, Jóhanna Lilja Þrúðmarsdóttir og Lárus Ágúst Bragason kosin í stjórn félagsins auk Ágústs Sigurðssonar sem jafnframt var kosinn forseti. Skoðunarmenn voru kosin þau Þorbergur Albertsson og Sigríður Viðarsdóttir. Einhugur var á stofnfundi að stefna að líflegri dagskrá hjá félaginu strax á fyrsta ári og skipuleggja m.a. sérstaka Stofngöngu í sumar. Vitað var um marga sem ekki komust til fundar af ýmsum ástæðum, en hafa áhuga á að vera með, og var því ákveðið að gefa fólki færi á því að gerast stofnfélagar áfram fram eftir árinu. Þetta mæltist vel fyrir.
Hægt er að skrá sig í félagið með því að senda póst á ferdafelag.rangaeinga@gmail.com en félagið er einnig á Facebook @Rangaeingar.