3.9 C
Selfoss

Grillaðar risarækjur og ananas með hunangs-mareneringu

Vinsælast

Hlynur Friðfinnsson er sunnlenskur matgæðingur vikunnar.

Ég vil þakka Gunna vini mínum kærlega fyrir áskorunina. Líkt og Gunni dreg ég upp uppskrift úr bókum betri helmingsins að öðrum kosti væri þetta heldur ómerkilegur pistill. Frúin fær þó iðulega aðstoð mína við eldamennskuna en við grillið er ég einmitt best geymdur og þó ég segi sjálfur frá þá geisla ég af gleði og hamingju þegar ég fæ að fíra upp í kolunum.

Þessi réttur er í miklu uppáhaldi hjá okkur hjónum og er einfaldur, fljótlegur og sumarlegur. Þennan rétt fann Júlí mín einhversstaðar á alnetinu og vill ekki eigna sér höfundaréttinn svo ég skal gera það.

Grillaðar risarækjur og ananas með hunangs-mareneringu

50 gr smjör, 1 dl hunang og 2 msk soja sósa sett í pott og soðið saman.  2- 3 hvítlauksgeirar rifnir út í og soðið saman þar til sósan hefur þykknað. Kryddið með salti og pipar.

Ferskur ananas skorinn í bita og þrætt uppá teina til skiptis við risarækjur. 

Rækjuspjótin eru því næst pensluð með mareneringunni og skellt á grillið í 2-3 mín á hvorri hlið.

Spjótin eru svo toppuð með ferskum kóríander og borin fram með góðu salati og hvítlauksbrauði. 

Þeir sem mig þekkja vita að ég er vínmaður mikill og vil mæla með að para þetta með Pouilly-Fuissé hvítvíni – toppurinn!

Í eftirrétt er créme brulée en ég er ennþá að leita eftir hinni fullkomnu uppskrift…


Að lokum vil ég skora á fjölhæfu vinkonu mína og ananas lover hana Helgu Guðrúnu en hún hefur margoft sýnt frá eldamennsku sinni á instagram. Yfir til þín Holy.

Nýjar fréttir