0.6 C
Selfoss

Er samráðsskyldan uppfyllt í sveitarfélaginu?

Vinsælast

Allt frá árinu 2018 hefur verið lögbundin skylda á sveitarfélögum að starfrækja notendaráð til að tryggja samráð notenda félagsþjónustu við stefnumörkun og áætlanagerð.

Árið 2019 sendi Öryrkjabandalag Íslands erindi á alla sveitarstjóra landsins þar sem brýnd var fyrir þeim skyldan til þess að koma notendaráðum á laggirnar og tryggja þannig samráð fatlaðra íbúa sveitarfélagsins og hagsmunasamtaka fatlaðs fólks.

Samráð er lykillinn að gæðum í stefnumótun og reglusetningu þegar kemur að mannréttindamálum svo sem félagsþjónustu. Það er því ekki að ástæðulausu að lög geri ráð fyrir skyldu sveitarfélaga til þess að hlusta á raddir þeirra sem þjónustan beinist að.

Öryrkjabandalaginu hefur boðist að skipa fjölmarga fulltrúa í notendaráð þar sem þeim hefur verið komið upp. Til þess að sá hópur valdeflist og hafi bestu mögulegu upplýsingar um störf notendaráða vítt og breitt um landið, starfrækir Öryrkjabandalagið umræðuhóp fyrir fulltrúa sem sem sitja í notendaráðum. Allir fulltrúar fatlaðs fólks í notendaráðum landsins og annars konar samráðshópum við yfirvöld eru velkomnir í þann hóp og geta sett sig í samband við skrifstofu Öryrkjabandalagsins til að komast á póstlistann, til dæmis með tölvupósti á netfangið: mottaka@obi.is.

Því miður hefur orðið misbrestur á að öll sveitarfélög hafi komið sér upp fullnægjandi notendaráðum í málefnum fatlaðs fólks í samræmi við 8. grein laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Í sumum tilfellum hefur verið skipað í slík notendaráð án aðkomu Öryrkjabandalagsins og því höfum við ekki getað veitt fötluðu fólki í þeim notendaráðum stuðning og jafningjafræðslu. Þetta er óásættanlegt og hefur Öryrkjabandalag Íslands því beint því að Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála að gerð verði úttekt á því hvaða sveitarfélög hafa ekki enn brugðist við þessari lögbundnu skyldu sinni.

Það skiptir alla borgara landsins máli að hlustað sé á fólkið í nærumhverfinu og sérstaklega á fólkið sem sem eru notendur félagsþjónustu. Því skorum við á þig lesandi góður að gera málefni fatlaðs fólks í sveitarfélaginu að þínum og veita sveitarstjórnum og þeim einstaklingum sem bjóða sig fram í komandi sveitarstjórnarkosningum aðhald hvað varðar áherslur fulltrúa í þessari mikilvægu réttindabaráttu.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands
Rúnar Björn Herrera Þorkelsson, formaður NPA-miðstöðvarinnar
Katrín Oddsdóttir, mannréttindalögfræðingur

Nýjar fréttir