-7 C
Selfoss

Baráttudagurinn og Úkraína

Vinsælast

Einn af hápunktum ársins hjá konum víðsvegar um heim er 8. mars,  alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Hann á rætur að rekja allt til ársins 1910 þegar baráttukonur fjöldamargra ríkja komu saman og ákváðu að byggja upp samtakamátt sinn og bindast böndum þvert á landamæri. Í fyrstu var megináherslan lögð á baráttu fyrir rétti verkakvenna á vinnumarkaði, s.s. fyrir launajafnrétti á við karla, en þá höfðu konur yfirleitt helming af launum karla fyrir sömu vinnu og bjuggu við þrælakjör að öllu leyti. Líka skyldi barist fyrir kosningarétti og öðrum mannréttindum konum til handa. Alls staðar blasti kynjamisréttið við, alls staðar glímdu konur við ömurlegar afleiðingar þess að vera taldar annars flokks af ríkisvaldi, löggjafa, atvinnurekendum, heilbrigðiskerfi, menntakerfi, trúarbrögðunum – og svona mætti áfram telja.

Systrabönd í þágu kvenna og stúlkna

Saga Soroptimistahreyfingarinnar spannar nú 101 ár og eru rætur hennar samofnar rótum þeirra kvennahreyfinga, framfarahreyfinga og mannréttindahreyfinga sem upp úr þessum jarðvegi eru sprottnar. Fyrsti Soroptimistaklúbbur heims var stofnaður í Bandaríkjunum 1921 og helgaði sig baráttunni fyrir að bjarga rauðviðarskógunum fornu og mikilfenglegu sem valdamikil skógarhöggsfyrirtæki voru þá farin að höggva niður svo eyðing þeirra blasti við. Þessi samtök Soroptimista í Bandaríkjunum voru fyrstu samtökin þarlendis til að taka upp baráttuna fyrir verndun þessara skóga. Næsti klúbbur var stofnaður í Bretlandi til að aðstoða munaðarlausar stúlkur og reka skóla fyrir þær. Klúbbar urðu til í fleiri löndum í kjölfarið og 1928 var komið á alþjóðlegum samtökum Soroptimista. Svona mætti áfram telja, en þarna strax var komin fram rík áhersla Soroptimista á umhverfismál, menntamál og hagsmuni stúlkna sem höllum fæti stóðu. Með seinni heimsstyrjöldinni varð Soroptimistum ljóst að konur og stúlkubörn voru „gleymd“ fórnarlömb stríða, sem iðulega kölluðu yfir þær aukna hætti á mansali og grimmilegu kynferðislegu ofbeldi til viðbótar við þekktari afleiðingar stríðsátaka. Þegar Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar 1948 og mannréttindayfirlýsing þeirra varð til voru Soroptimistar ekki langt undan og fljótlega fengu Soroptimistar á heimsvísu áheyrnaraðild að ýmsum nefndum og stofnunum Sameinuðu þjóðanna, tengsl sem hafa verið afar sterk og áhrifamikil allar götur síðan. Um þessar mundir eru hundruðir klúbba starfandi í flestum löndum heims og félagar eru 72 þúsund. Allur þessi fjöldi kvenna helgar sig verkefnum á fjölbreyttum sviðum sem falla að markmiðum Soroptimista um heim allan.

Skipulagðar nauðganir viðurkenndar sem stríðsglæpir

Það varð svo ekki fyrr en í kjölfar stríðsins í Júgóslavíu á tíunda áratugnum sem alþjóðasamfélagið viðurkenndi fyrst að skipulagðar nauðganir og kynlífsánauð voru orðnar hluti af stríðsrekstri og í kjölfarið bættust þær við skilgreiningar á því hvað hugtakið stríðsglæpir fela í sér. Í þessu fólust mikil tímamót.

Ár hvert hafa Soroptimistar valið þema til að leggja áherslu á 8. mars og í ár höfðu þeir samþykkt að leggja sérstaka áherslu á umhverfismál og áhrif loftslagsbreytinga á líf kvenna og stúlkna, reyndar mannkynið allt og þessa einu plánetu sem við eigum.

En þá varð innrás. Herir Rússa réðust með vopnavaldi yfir úkraínsk landamæri og þverbrutu þannig á sjálfsákvörðunarrétti úkraínsku þjóðarinnar. Á augabragði settu Soroptimistar um allan heim í forgang að aðstoða systur (en svo köllum við okkur) í þeim fimm klúbbum Soroptimista, sem starfa í Úkraínu, á allan þann hátt sem unnt er. Neyðarsjóður Evrópusambands Soroptimista sendi út ákall til allra klúbba í Evrópu, þar á meðal þeirra 19 sem eru starfandi hér á landi um fjárframlög til úkraínsku klúbbanna en líka til klúbba um alla Evrópu um að bretta strax upp ermar og hefja safnanir á aðföngum, skipulagningu á neyðaraðstoð við flóttamenn og móttöku þeirra, ekki aðeins í nágrannalöndum Úkraínu þangað sem flóttamenn eru teknir að streyma unnvörpum, heldur einnig  dæmis á Norðurlöndum. Íslenskir Soroptimistaklúbbar og einstaklingar í röðum Soroptimista hér á landi, þ.m.t. Soroptimistaklúbbur Suðurlands, hafa strax brugðist rausnarlega við þessu ákalli.

Hugur okkar er líka hjá rússneskum Soroptimistasystrum okkar sem nú mega horfa upp á það að konur eru sviptar grundvallarmannréttindum eins og tjáningarfrelsi sem hefur tekið blóð, svita og tár að berjast fyrir og handteknar fyrir það eitt að mótmæla stríðsrekstri Pútíns sem ógnar allri Evrópu.

Soroptimistar á Evrópuvísu hafa sameinast um eftirtalda yfirlýsingu:

Stríð er ekki kynhlutlaust

Konur þjást óhóflega í vopnuðum átökum. Þær sækjast sjaldan í stríð en verða fyrir mestum áhrifum af stríði. Í friðarviðræðum er konum yfirleitt ekki boðið að borðinu eða þær jafnvel útilokaðar. Átökin í Úkraínu hvetja okkur til að vekja athygli á þessu. Við óttumst um heilsu og velferð milljóna kvenna og stúlkna sem gætu orðið fyrir meiðslum, misst heimili sín og vinnu, farið á flótta, misst af skólagöngu, lent í nauðgunum og dáið. Staða kvenna er miklu viðkvæmari en karla gagnvart stríðsglæpum. Við skorum á ríkin að virða að fullu mannréttindi allra kvenna og stúlkna í Úkraínu eins og kemur fram í mannréttindasáttmála Evrópuráðsins sem öll aðildarríki Evrópuráðsins samþykktu að fylgja þar á meðal Rússar og Úkraínumenn.

Soroptimistaklúbbur Suðurlands hvetur Íslendinga til að sýna Úkraínu allan þann stuðning sem verða má og opna faðminn fyrir flóttamönnum þaðan með systraþel og bræðraþel að leiðarljósi.

Fyrir hönd Soroptimistaklúbbs Suðurlands,
Hildur Jónsdóttir
verkefnisstjóri SIGURHÆÐA – þjónustu við þolendur kynbundins ofbeldis á Suðurlandi.

Nýjar fréttir