-1.1 C
Selfoss

Fyrirsjáanleiki

Guðmundur Ármann

Við þurfum fyrirsjáanleika. Þegar hann skortir kemur óöryggi. Ákvarðanir sem teknar eru af góðum vilja verða rangar, uppbygging verður án samhengis, verður dýrari og tækifæri tapast.

Við þurfum öll fyrirsjáanleika í leik og starfi.

Íbúar á Eyrarbakka og Stokkseyri þurfa fyrirsjáanleika varðandi uppbyggingu á skóla. Foreldrar, nemendur, kennarar og starfsfólk þurfa fyrirsjáanleika. Hvar eiga nemendur að stunda nám næsta haust.

Hestamenn á Selfossi þurfa fyrirsjáanleika. Hvar eiga hestamenn á Selfossi að fá rými til framtíðaruppbyggingar. Uppbygging reiðvega, á það að vera bútasaumur og breytingar eða fyrirsjáanleiki og markviss uppbygging.

Foreldrar og framkvæmdaaðilar á Selfossi þurfa fyrirsjáanleika varðandi uppbyggingu á leik- og grunnskólum. Slík uppbygging á ekki að vera kostnaðarsöm skyndiákvörðun þegar allt er löngu sprungið. Uppbygging á að vera skipulögð hið minnsta 10 ár fram í tímann. Íbúaspá, áætlanir sveitarfélagsins og aðalskipulag á að veita fyrirsjáanleika.

Íbúar á Eyrarbakka og Stokkseyri, þurfa fyrirsjáanleika. Hvenær verður ljósleiðari lagður í bæði þorp. Staðan í dag er hamlandi á uppbyggingu, dregur úr lífsgæðum íbúa og tækifærum. Íbúar á Eyrarbakka og á Stokkseyri þurfa fyrirsjáanleika.

Verktakar þurfa ekki að heyra; „uppbygging hefur verið of hröð og við þurfum að hægja á“ og svo stuttu síðar; „jú, við höldum bara þessari miklu uppbyggingu áfram og reynum að bregðast við þrátt fyrir allt„. Verktakar þurfa fyrirsjáanleika.

Iðnfyrirtæki þurfa fyrirsjáanleika, hvar er iðnfyrirtækjum ætlað áhugavert og viðeigandi svæði til framtíðaruppbyggingar.

Með fyrirsjáanleika verður Árborg enn áhugaverðari staður fyrir ný fyrirtæki til að flytja starfsemi sína í sveitarfélagið.

Með fyrirsjáanleika förum við betur með skattfé, við sköpum öryggi, við fjölgum tækifærum og aukum lífsgæði.

Guðmundur Ármann,
höfundur sækist eftir
2. sæti á lista í prófkjöri
Sjálfstæðisflokksins.

Nýjar fréttir