-2.2 C
Selfoss

Tímamót við Héraðsdóm Suðurlands

Vinsælast

Hjörtur Októ Aðalsteinsson lét um síðustu mánaðamót af starfi sem dómari við Héraðsdóm Suðurlands sem hann hefur gegnt frá ársbyrjun 2004, lengstum sem dómstjóri. Hjörtur varð sjötugur 27. febrúar sl.

Hjörtur útskrifaðist úr lagadeild Háskóla Íslands árið 1977 og hóf þá strax störf sem fultrúi við sakadóm Reykjavíkur. Hann varð sakadómari 1989 og við dómstólabreytinguna 1992 þegar héraðsdómstólarnir voru stofnaðir tók hann við starfi sem héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur. Í ársbyrjun 2004 hóf hann störf við Héraðsdóm Suðurlands, varð dómstjóri þar í ársbyrjun 2006 og gegndi því embætti til 1. ágúst 2021 þegar Sigurður Gísli Gíslason , núverandi dómsstjóri , tók við keflinu. Þá var Hjörtur settur dómari við Landsrétt í hálft ár á árinu 2020.

Við starfslok er Hjörtur sá starfsmaður dómstólanna íslensku sem lengstan starfsaldur hefur, eða  tæp 45 ár. 

Starfsferill Hjartar hefur verið afar farsæll. Eftir að SFR – Stéttarfélag í almannaþjónustu hóf vinnustaðakannanir og valdi Stofnun ársins hefur Héraðsdómur Suðurlands þrisvar hlotið þann heiðurstitil auk þess sem Hjörtur hefur ítrekað fengið hæsta skor fyrir stjórnun meðal forstöðumanna ríkisstofnana yfir landið allt. Þá hefur Hjörtur verið í fararbroddi þeirra dómara sem eiga samstarf við Barnahús, en þetta samstarf hans hófst strax við stofnun þess. Hirti hefur margoft verið boðið  sem fyrirlesara á viðburði á Evrópuvettvangi þar sem fjallað hefur verið um reynsluna af Barnahúsi, sérstaklega frá sjónarhóli dómskerfisins. 

Hjörtur er kvæntur Hildi Jónsdóttur, verkefnisstjóra Sigurhæða, þjónustu við þolendur kynbundins ofbeldis á Suðurlandi og eiga þau samtals fimm börn og fimm barnabörn.

Einar Karl Hallvarðsson, fráfarandi ríkislögmaður, tók við embætti sem dómari við Héraðsdóm Suðurlands 28. febrúar sl.

Nýjar fréttir