-6 C
Selfoss

Of gömul bæjarstjórn í Árborg!

Kristján Einarsson.

Sveitastjórnarkosningar eru í vændum og fólk að raða á lista. Sumir fara prófkjörs leiðina aðrir velja innan flokks.

Sveitarfélagið Árborg er í sögulegum vexti, fjölgun íbúa hefur verið um 3% milli ára, en er nú yfir 11% Nýir tímar eru að renna upp og nýjar áskoranir. Ungt fólk, nýtt í pólitík, sem flest hefur ekki tengsl við gamalkunnar fjölskyldur býður fram krafta sína til setu í bæjarstjórn. Við eigum að fagna því og horfa til þessa fólks hvar sem í flokki eru.

En gamla settið í bæjarstjórn ætlar ekki að gefa sæti sín eftir, flest hver. Þau eru svo „ferlega frábær og miklu betri en þú“ eins og Ríó söng um árið.

Allavega er það staðreynd að fjórir karlar hafa nú setið 12 ár í bæjarstjórn, þrjú kjörtímabil, tvö í viðbót eru svo að ljúka sínu öðru kjörtímabili.

Þetta fólk verður að hafa eitthvað nýtt að segja. Nokkrir hafa skrifað í blöð á þessum árum, afar fáar greinar, sumar sem gengu gagnvart þeim tíma sem skrifin komu. Aðrar voru bara gjálfur um eigið ágæti. Svo eru til innan núverandi bæjarstjórnar þeir sem segja okkur kjósendum ekki neitt öll þessi 12 ár,  e.t.v. eiga erfitt að setja staf á blað.

Það eru áhugaverðar staðreyndir sem koma í ljós t.d. hvað  við útsvarsgreiðendur í Árborg höfum greitt þessu fólki fyrir setu sína, skoðum það aðeins. (Vil þó geta þess að fulltrúar eiga að fá greitt fyrir sína vinnu)

Ætla má að bæjarfulltrúi sem setið hefur í þrjú kjörtímabil hafi bæði verið í meirihluta og minnihluta. Sami fulltrúi hefur á þessum tíma tekið setu sem formaður í bæjarráði og sæti forseta, auk formannssetu í nefndum. Til að gefa einhverja mynd af launagreiðslum til viðkomandi á  þessum þremur kjörtímabilum (12 árum) gæti þetta verið svona:

Almenn laun í 12 ár, þrjú kjörtímabil,  37.194.912 + c.a. 1.500.000 fyrir nefndir á þessu tímabili + 1.440.000 símastyrkur, samtals:   40.134.912-

Tveggja kjörtímabils fulltrúi hefur fengið á þessum átta árum, samtals 27.736.608-.

Fjórir núverandi bæjarfulltrúar hafa setið 12 ár í bæjarstjórn. Laun til þeirra á þessum tíma eru því samtals c.a. 160.539.648 milljónir króna.

Bæjarfulltrúi með setu í 8 ár hafa samtals fengið ca. 55.473.216 milljónir króna.

Það er nóg komið af krónum í gildi „gamalmennanna“ í bæjarstjórn, greiðum  fyrir ferskum vindum framtíðar.

Skiptum út gamla settinu og fáum fólk sem hefur eitthvað að segja. Allavega fjórmenningunum, tvímenningarnir þurfa að sanna sig rækilega m.v. breytta ásýnd framtíðar í Árborg.

Nýjar fréttir