Nanna Rún Sigurðardóttir er nýr kennslustjóri á HSU og mun framvegis halda utan um allt læknanám við HSU. Hún tekur við því starfi af Arnari Þór Guðmundssyni yfirlækni heilsugæslunnar á Selfoss sem hefur sinnt því um árabil. Nanna Rún hefur nýlokið sérnámi í heimilislækningum við heilsugæsluna á Selfossi og hefur verið ráðin áfram sem heimilislæknir við sömu stöð.
Alls eru um 4-8 læknanemar á 6. ári á HSU í einu, viku í senn og 1-2 sérnámsgrunnlæknar (áður kallaðir kandidatar) í einu á hverjum tíma.
HSU fékk á síðasta ári formlega viðurkennt sérnám í heimilislækningum og fer það fram á nokkrum heilsugæslum ásamt lyflækningadeild, göngudeild og bráðamóttöku. Nú eru 7 sérnámslæknar í heimilislækningum á HSU en það er sí stækkandi hópur.
Kennslustjóri starfar í samvinnu við yfirmenn deilda og sér um að skipulagi sé rétt fylgt og tryggir að handleiðsla og skráning fylgi gildandi skilyrðum. Hann er jafnframt tengiliður við þær stofnanir og aðila utan við HSU sem koma að þessari þjálfun.
Sérnám við HSU hefur vaxið undanfarin ár og sífellt fleiri kjósa að starfa áfram við HSU að sérnámi loknu, sem er fagnaðarefni, landsbyggðin þarf sannarlega á því að halda.