-2.6 C
Selfoss

Kæru vinir og félagar!

Vinsælast

Undanfarna mánuði hef ég hitt margt fólk sem hefur áhuga á framgangi og vexti Hveragerðis. Í þessum samtölum hefur fólk deilt með mér sýn á það hvernig við viljum sjá framtíð og stjórn bæjarins þróast og hvernig við viljum bæta þjónustu á komandi árum. Í kjölfar þessara samtala, og í ljósi þess að til mín hefur verið leitað af breiðum hópi fólks sem ég er mjög þakklát fyrir, hef ég ákveðið að gefa kost á mér í 1. sæti lista Framsóknar í Hveragerði fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.

Ég hef mikinn áhuga á samfélagsmálum og þykir mikilvægt að geta lagt mitt af mörkum. Á núverandi kjörtímabili kom ég inn sem varabæjarfulltrúi og bæjarfulltrúi frá árinu 2020. Undanfarin fjögur ár hef ég setið í umhverfisnefnd bæjarins og er jafnframt varamaður í skipulags- og mannvirkjanefnd. Áður sat ég í bæjarstjórn Hveragerðisbæjar 2010-2014.

Það hefur legið vel fyrir mér að vinna með fólki á ólíkum vettvangi. Hef ég m.a. unnið að málefnum fatlað fólks og starfað á sviði fræðslu, æskulýðs og menntamála. Hef stýrt verkefnum á vegum stjórnmálanna og tekið að mér framkvæmdastjórn á sviði æskulýðsmála Þjóðkirkjunnar. Ég er skrifstofustjóri Framsóknar, er með BA- próf í guðfræði, diploma í kennslufræði og lokið námi í verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun. Ég er formaður skólanefndar Fjölbrautaskóla Suðurlands og hef tekið virkan þátt í sjálfboðavinnu á sviði íþrótta- og menningarmála sem og annarra trúnaðarstarfa.

Síðla árs 2007 flutti ég í Hveragerði frá Selfossi þar sem ég er fædd og uppalin. Í Hveragerði er afar gott að búa og hér hef ég verið svo lánsöm að ala upp syni mína þrjá. 

Hveragerði er bær í örum vexti og því mikilvægt að uppbygging innviða og þjónusta við íbúa haldist sem best. Jafnframt að okkur takist að varðveita þá bæjarmynd sem við nú þegar höfum og er okkur kær. Ég vil leggja áherslu á góða samvinnu og opið og virkt samtal um það hvernig við í sameiningu gerum Hveragerði að betri bæ. 

Það eru áhugaverðir tímar fram undan.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir

Nýjar fréttir