-6 C
Selfoss

L-listi óháðra í Rangárþingi eystra

Christiane Leonor Bahner.

Með hækkandi sól fer hugur landsmanna að beinast að komandi sveitarstjórnarkosningum. Á hverjum degi birtast tilkynningar frá einstaklingum sem hyggjast bjóða sig fram, og í flestum tilfellum eru listar þeirra bundnir flokkum sem starfa í landspólitík.

Í Rangárþingi Eystra eru þrír listar með fulltrúa í sveitarstjórn. Einn þeirra er óháð framboð sem hefur sprottið af grasrótinni í sveitarfélaginu, af fólki sem vill leggja sig fram í þágu nærsamfélags án þess að vera flokksbundið.
Kjósendum sé þökk hefur L-listinn komið í veg fyrir að einn flokkur væri með hreinan meirihluta í sveitarstjórn á yfirstandandi kjörtímabili. Það ríkir ákveðið jafnvægi milli stóru listanna tveggja sem hefur leitt til þess að pólitíska menningin hefur tekið miklum framförum á þessum árum. Fagmennska, heiðarleiki og virðing fyrir skoðunum annarra hafa verið í fyrirrúmi.
Þrátt fyrir það að fulltrúi listans sé einn í minnihluta í sveitarstjórn hefur L-listinn beitt sér fyrir betra samfélagi, ábyrgri fjármálastjórn, fagmennsku í stjórnun og ákvarðanatöku, sjálfbærni í allri landnýtingu og umhverfisvernd auk þess að skapa samfélag sem við viljum öll vera hluti af.
Það er okkar áætlun að halda því góðu starfi áfram og stefnum við því að bjóða fram í sveitarstjórnarkosningum í vor.
Fyrir alla sem hafa áhuga á að móta framtíð sveitarfélagsins og vilja leggja hönd á plóg verður haldinn opinn fundur laugardaginn 26. febrúar n.k., kl. 14:00 í Midgard á Hvolsvelli. 

Verið velkomin!

Christiane L. Bahner,
fulltrúi L-listans í sveitarstjórn Rangárþings Eystra.

Nýjar fréttir