1.7 C
Selfoss
Home Fastir liðir Heimspekibækur eru kjarninn í öllu hjá mér núna

Heimspekibækur eru kjarninn í öllu hjá mér núna

0
Heimspekibækur eru kjarninn í öllu hjá mér núna

segir lestrarhesturinn Viðar Benónýsson

Viðar Benónýsson er fæddur á Selfossi en alinn upp í Rangárþingi-Eystra. Eftir leik- og grunnskóla á Hvolsvelli var haldið í Menntaskólann að Laugarvatni. Svo tóku við nokkur ár af vinnu og fjöri með viðkomu í flestum heimsálfum sem vitað er um. Síðan hélt leiðin áfram í iðnnám og þar lærði strákurinn að múra. Að hálfu námi loknu stækkaði fjölskyldan. Þá fór námið aðeins á ís. En nú skal gera aðra atlögu að seinni hlutanum, reyna að bræða ísinn og nýta búsetuna í Reykjavík til þess.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Ég er leslatur um þessar mundir en það eru nokkrar bækur sem bíða á náttborðinu. Það sem stýrir lestrinum er breytilegur áhugi hverju sinni sem er þó í sífelldri í endurskoðun. Ég nefni bækurnar 7 Habits of highly effective people eftir Stephen Covey sem snýst um það að ná sem bestum árangri í markmiðssetningum, The Holographic Universe eftir Michael Talbot þar sem fjallað er meðal annars um hvort að alheimurinn geti verið risastór heilmynd eða þrívíddarmynd sem varpað er út í geiminn. Og Deep Simplicity (John Gribbin) og Evolution 2.0 (Perry Marshall). Þessar bækur eru nú teknar upp endrum og sinnum í mismunandi röð hverju sinni. Lestrarvenjan breyttist á einum tímapunkti og fór ég þá að lesa smá í einni bók og skipta yfir í næstu í tíma og ótíma. Hvort það svo breytist verður að koma í ljós.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Það eru bækur sem geta mögulega fært mér skilning á sjálfum mér, öðru fólki og heiminum. Sálfræðibækur, sagnfræðibækur, heimspekibækur, ævisögur, bækur um náttúru og heima og geima. Ég hef mestan áhuga á bókaflokk sem ég myndi kalla sannsögur eða óskáldaðar bókmenntir. Hugsa stundum um að ég muni lesa þessar gömlu íslensku hetjusögur, svona eftir fimmtugt, þá kannski við arineld. En það gæti endað með sögurnar í sýndargleraugum hver veit. Heimspekibækur eru þó kjarninn í öllu hjá mér núna og enda ég alltaf þar fljótt þegar ég fer út í eitthvað annað. Það eru þá bækur sem gefa ýmis sjónarhorn á tilveruna og sýna leiðir til að takast á við tilveruna.

Ertu alinn upp við lestur bóka?

Það var lesið fyrir mig á kvöldin aðallega. Það kemur upp í hugann bók sem heitir Vippi, svo var það Benjamín dúfa. Í grunnskóla er það Gæsahúð seríunnar eftir Helga Jónsson. Svo voru bækurnar Sturlaðar staðreyndir. Þær las ég í hálftíma lestrastundum fyrir hádegismat á elsta stigi í grunnskóla. Þær kröfðust ekki mikillar einbeitingar sem var fínt fyrir unglingin. Ég man eitt sumarið þá stofnuðum við nokkrir krakkar smá bókaklúbb og lásum öll sömu bókaseríunna. Ég man ekki hvaða bækur þetta voru. Líklega einhver drekaævintýri. Þetta endist ekki lengi en er minnistætt og skemmtilegt.

Eitthvað sem einkennir lestrarvenjur þínar?

Eftir annað ár í Menntó á Laugarvatni hófst lesturinn af alvöru. Ég valdi að lesa Reisubók Guðríðar Símonardóttur í íslenskuáfanga hjá Jözuri og þá var ekki aftur snúið. Með lestri þeirra bókar áttaði ég mig á áhuganum á sögunni og upp úr því spratt mikill lestraráhugi. Þessi bók er mögnuð og ég gat varla látið hana frá mér. Á þessu tímabili var lesið og lesið við hvert tækifæri og í langan tíma í senn, hverja bókina á eftir annarri. Það var venjan. Það hefur aðeins dregið úr lestrinum núna. Lestravenjurnar þessa dagana er að taka upp bók við og við ef ég nenni því. Þegar það gerist þá eru lesnar tíu blaðsíður eða í hálftíma.

En áttu þér uppáhaldshöfunda?

Peter Ralston er einn góður. Sá skrifaði meðal annar áhrifamikla bók sem heitir The book of not knowing og Zen body being. Höfundurinn var heimsmeistari í blönduðum bardagalistum í Kína árið 1978. Eftir það hætti hann að berjast og einbeitti sér að kennslu, bæði í bardagalist og íhugun með innblástur frá zen buddisma. Peter er mjög áhugaverður maður sem er erfitt að segja frá í stuttu máli. En skilaboðin og pælingarnar eru áhugaverðari. Hann talar mikið um að taka engri vitneskju sem gefinni. Það er alltaf hægt að skilja eitthvað betur. Bara að íhuga það fyrir alvöru. Það er oft þetta einfalda sem við tökum sem gefnu eða sem sjálfsögðu. Þar liggur sannleikurinn. Kannski betur sagt: Að yfirsjá ekki það augljósa.

Hefur bók einhvern tímann rænt þig svefni?

Stundum hafa bækur stolið eitthvað smá af svefninum. Ég get ekki neitað því.  Kannski Reisubók Guðríðar Símonardóttur hafi aðeins tekist það – daginn fyrir próf í menntaskóla.

En að lokum Viðar, hvernig bækur myndir þú skrifa sem rithöfundur?

Það er óráðið og alltof vanhugsað. Ég held að það muni gerast seint ef það gerist. En ef ég gef mér þá ímyndun þá væri það heimspekibók um eigin upplifun af heiminum. Svo væri næsta bók kannski um ævintýramiklar raunir eftir mikið ferðalag.

Lestrarhesturinn er í umsjón Jözurar. Sendið honum óskir á jonozur@gmail.com