-9.4 C
Selfoss

Er fjárhagsstaða Svf. Árborgar bág?

Vinsælast

Nú í aðdraganda kosninga er fyrirséð að íbúar Svf. Árborgar megi búast við fjölda greina frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins og fylgitungla þeirra um bága fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Fyrirséð er það, vegna þess að þeir eru sjálfskipaðir í minnihluta bæjarstjórnar. Ef aftur á móti að Sjálfstæðisflokkurinn væri í meirihluta bæjarstjórnar líkt og hann var árin 2010-2018 að þá myndu þeir segja að fjárhagsstaðan væri góð eða sterk miðað við aðstæður. Aðferðafræðin er mörgum kunn, hún er kennd í stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins.

Raunveruleg fjárhagsstaða Svf. Árborgar 

Skuldahlutfall sveitarfélaga er einn af þeim megin mælikvörðum sem litið er til þegar fjallað er um það hvernig sveitarfélög standa fjárhagslega. Skuldahlutfallið segir til um hvert hlutfall skulda er á móti tekjum sveitarfélags á hverju rekstrarári fyrir sig. Skuldahlutfall A og B hluta stofnana Svf. Árborgar hefur frá því árið 2010 til ársins 2020 hæst farið í 255%.

Á núverandi kjörtímabili hefur skuldahlutfallið hæst farið í 156% á árinu 2020 og þá einungis hækkað hlutfallslega um 6% frá árinu 2018 (147%), þrátt fyrir fordæmalausa fjárfestingu í uppbyggingu innviða til að bregðast við örri íbúafjölgun og þeirri fjárfestingaskuld sem hafði safnast upp árin á undan í tíð D-lista Sjálfstæðisflokksins í Svf. Árborg.

Samkvæmt fjárhagsáætlun áranna 2022-2025 sem samþykkt var í bæjarstjórn í desember síðastliðnum að þá má búast við því að skuldahlutfallið muni hæst fara í um 180% árið 2023 líkt og var árið 2014 og svo síga niður á við þegar jafnvægi hefur náðst í innviðauppbyggingunni og verða um 150% árið 2025.

Málefnaleg umræða er af hinu góða um fjárhag sveitarfélagsins, enda meiri eftirspurn eftir henni hjá skynsömu fólki en sögufölsunum, slúðri og dylgjum. Að því sögðu, fjárhagsstaða Svf. Árborgar er langt í frá að vera bág ef miðað er við fjárhagsstöðu þess undanfarinn áratug eða svo, en það má klárlega gera betur til framtíðar eins og gildir um allan annan rekstur, hvort sem er í einka- eða opinbera geiranum.

Tómas Ellert Tómasson,
bæjarfulltrúi M-listans í Svf. Árborg,
varaformaður bæjarráðs og
formaður Eigna- og veitunefndar.

Nýjar fréttir