5 C
Selfoss

Við búum öll yfir þeim dýrmæta hæfileika að geta bjargað lífi

Vinsælast

Í tilefni af 112 deginum sem haldinn er föstudaginn 11. febrúar 2022

Það er gömul saga og ný að slys og veikindi gera ekki boð á undan sér. Hvar og hvenær sem er getum við lent í þeirri stöðu að þörf er á kröftum okkar í að leggja slösuðum eða veikum lið. Við getum líka lent í því að þurfa á aðstoð að halda. Þá er dýrmætt að fyrstu viðbrögð nærstaddra séu rétt, líkt og það er mikill styrkur í því að kunna til verka.

Við höfum líklega flest veitt skyndihjálp byggða á innsæi okkar og skynsemi. Það að vera til staðar fyrir þann veika eða slasaða, kyssa á bágtið, setja plástur eða hugga telst allt til skyndihjálpar. Það að geta ,,einungis“ boðið nærveru sína á ögurstundu getur verið það allra dýrmætasta fyrir fólk í neyð.

Það er margsannað að rétt viðbrögð á slysstað geta skipt sköpum í lífi þeirra sem slasast og því öllum mikilvægt að þekkja undirstöðuatriði í skyndihjálp. Æskilegt er að sem flestir læri skyndihjálp því oftast líða nokkrar dýrmætar mínútur þar til fagfólk heilbrigðisstéttarinnar kemur til hjálpar og því er mikilvægt að bregðast rétt við. Með útbreiðslu á þekkingu í skyndihjálp stuðlum við að betra og öruggara samfélagi.

Slys og veikindi gera ekki boð á undan sér og því er nauðsynlegt að geta brugðist rétt við þegar skyndileg óhöpp eða slys bera að. Með skyndihjálp viljum við varðveita líf, stuðla að bata og síðast en ekki síst láta ástand hins slasaða ekki versna. 

Með þessum skrifum viljum við hvetja alla til umhugsunar á hvaða hátt við getum bætt þekkingu okkar á skyndihjálp. Fjárfestum í þekkingu og styrkjum okkar innviði, sú þekking er fjársjóður sem fylgir eiganda sínum til framtíðar.

Fyrir hönd forvarnarteymis Árborgar 

Díana Gestsdóttir lýðheilsufulltrúi í Sveitarfélaginu Árborg

Nýjar fréttir