0.6 C
Selfoss

Unglingalandsmót á Selfossi loksins aftur komið á dagskrá

Vinsælast

„Unglingalandsmót UMFÍ er komið aftur á dagskrá. Það er auðvitað mikið lagt á sjálfboðaliða að undirbúa það í fjögur ár. En það er enginn bilbugur á okkur. Nú er þriðja tillagan hafin að því að halda mótið og enginn hefur skorast undan,“ segir Þórir Haraldsson, formaður framkvæmdanefndar Unglingalandsmóts UMFÍ.

Unglingalandsmótið hefur verði helsti fjölskylduviðburðurinn í gegnum árin og alltaf um verslunarmannahelgi. Mótið átti að vera á Selfossi um verslunarmannahelgina 2020. COVID-faraldurinn olli því að fresta þurfti mótinu þá og aftur í fyrra. Unglingalandsmót UMFÍ fór síðast fram á Höfn í Hornafirði um verslunarmannahelgina 2019.

Miðað við jákvæða þróun faraldursins og fyrirhugaðar afléttingar er gert ráð fyrir því að Unglingalandsmót UMFÍ fari fram á Selfossi um verslunarmannahelgina. Að mótinu standa ásamt UMFÍ Héraðssambandið Skarphéðinn (HSK) og sveitarfélagið Árborg. Mótsgestir geta tekið þátt í meira en 20 íþróttagreinum á daginn og farið með fjölskyldu og vinum öll kvöldin.

Vinna í 1096 klukkustundir

Framkvæmdanefnd Unglingalandsmótsins fundaði á Selfossi um mótið í gær og var þetta fyrsti fundur nefndarinnar á þessu ári. Þetta er jafnframt í þriðja sinn sem nefndin kemur saman til að funda um skipulagningu mótsins.

Sjálfboðaliðar hafa lagt mikið af mörkum til að halda mótið árið 2020 og svo aftur í fyrra. Þórir hefur haldið utan um upplýsingar um framlag sjálfboðaliða og sagði 1.096 vinnustundir hafa farið í undirbúninginn á síðastliðnum tveimur árum. Það gerir samfellda sjálfboðavinnur á hverjum degi í átta klukkustundir í hálft ár.

Þórir segir allt tilbúið, allar greinar klárar og nú verði sérgreinastjórar virkjaðir á ný. Dusta þurfi líka rykið af mörgum atriðum, kanna stöðu tjaldsvæðis, tónlistarfólks og fleira í þeim dúr.

Þórir segir átak að halda mótið á þessu ári. Sérstaklega sé leiðinlegt að nú hafi heilir þrír árgangar þátttakenda ekki tekið þátt í mótinu.

„Ég hvet íþrótta- og ungmennafélög um allt land til að koma Unglingalandsmóti UMFÍ aftur inn á dagatal sumarsins. Það verður að vera sameiginlegt verkefni okkar að vekja tilfinningarnar og dusta rykið af góðu minningunum af mótinu. Við þurfum að kveikja áhuga fólks á skipulagðri hreyfingu. Við verðum að koma fólki á hreyfingu, ekki aðeins fyrir þetta mót heldur allt skipulagt íþróttastarf,“ segir hann.

UMFÍ er landssamband allra ungmennafélaga á Íslandi. Innan þess eru um 450 félög um allt land og nærri því allir sem stunda skipulagt íþrótta- og æskulýðsstarf. Á meðal aðildarfélaga UMFÍ eru Valur og KR, Stjarnan, Tindastóll, ÍA, Höttur og ungmennafélögin Sindri, Umf Selfoss og mörg, mörg fleiri. Nærri því öll íþróttafélög á höfuðborgarsvæðinu eru innan UMFÍ að félögum í Hafnarfirði undanskildum.

Hvenær

Unglingalandsmót UMFÍ 2022 fer fram um verslunarmannahelgina 29. – 31. júlí 2022 á Selfossi. Öll ungmenni á aldrinum 11 – 19 ára geta skráð sig til leiks. Ekki er skilyrði að vera skráð/ur í ungmenna- eða íþróttafélag. Opnað verður fyrir skráningu 1. júlí 2022.

 

Fyrir hverja?

Unglingalandsmót UMFÍ er fjölskylduhátíð þar sem börn og ungmenni á aldrinum 11 – 19 ára reyna með sér í fjölmörgum íþróttagreinum en samhliða er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu, leiki og skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Næg afþreyting er fyrir alla fjölskylduna. Tjaldstæði er innifalið í þátttökugjaldinu.

 

Allar nánari upplýsingar verða birtar á www.ulm.is

Nýjar fréttir